Hvetja til umræðu um loftslagsmál

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir umræðufundi um loftslagsmál á Kjarvalsstöðum kl. 20 í kvöld.

Á fundinum fara fram umræður um þá skuldbindingu sem þjóðir heims gengust undir á loftslagsfundinum í París í desember á síðasta ári. Skuldbindingin felst í að halda hlýnun jarðar innan við tvær gráður. Á fundinum verður þeirri spurningu svarað hvað ríki, borgir, fyrirtæki og einstaklingar geta gert til að styðja við þessa skuldbindingu.

Frummælendur kvöldsins eru Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, Brynhildur Davíðsdóttir prófessor í umhverfis- og auðlindafræðumvið Háskóla Íslands, Ketill Magnússon heimspekingur og framkvæmdastjóri Festu – samfélagsábyrgð fyrirtækja og Hrönn Hrafnsdóttir sérfræðingur í loftslagsmálum hjá Reykjavíkurborg. Þau munu flytja örstutt erindi og ræða síðan saman um efnið og eftir það verður opnað fyrir almennar umræður.

Fundurinn er sá níundi í röðinni Borgin, heimkynni okkar, en markmið hennar er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert