Norðlægar áttir og kalt í veðri

Norðlægar áttir og víða ákveðinn vindur í dag og svalt í veðri. Norðan til á landinu verður éljagangur og frost 4 til 10 stig, en sunnan til á landinu verður sólríkt, samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofu Íslands.

Hægari vindur í nótt en bætir heldur í éljaganginn fyrir austan. Á morgun er útlit fyrir austlæga átt og heldur bætir í vind. Dálítið lægðardrag kemur upp að suðurströndinni með snjókomu, en dregur úr éljum fyrir norðan. Úrkomubeltið færist smám saman til vesturs og annað kvöld má búast við snjókomu á höfuðborgarsvæðinu. Heldur dregur úr frosti á morgun og hlánar við suðurströndina.

Á miðvikudag:
Austan 8-15 og snjókoma eða él með suðurströndinni, annars hægari vindur og sums staðar dálítil él. Frost 1 til 10 stig, en hiti um frostmark syðst.

Á fimmtudag og föstudag:
Suðaustlæg átt 5-13 m/s. Él sunnan- og vestantil, en þurrt og bjart að mestu norðanlands. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Austlæg átt og bjart að mestu, en él á stöku stað. Heldur kólnandi veður.

Á sunnudag:
Norðaustlæg átt og dálítil él norðan- og austan til, en bjart suðvestanlands. Kalt í veðri.

Á mánudag:
Útlit fyrir vaxandi sunnan átt með vætu og hlýnandi veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert