„Ríkiskirkjan“ veldur misskilningi

Merki Þjóðkirkjunnar er notað á síðunni en þar undir er …
Merki Þjóðkirkjunnar er notað á síðunni en þar undir er letrað Ríkiskirkjan.

Á Facebook hefur verið stofnuð síða sem nefnist Ríkiskirkjan. Síðan er ekki á vegum Þjóðkirkjunnar þó hún beri sama merki og Þjóðkirkjan notar á Facebook-síðu sinni.

Margir virðast telja að svo sé. Hefur töluverður misskilningur orðið á meðal fylgjenda síðunnar ef marka má athugasemdir fólks við færslur.

„Ríkiskirkjan“ birtir á síðu sinni mannakorn líkt og gert er á síðu Þjóðkirkjunnar auk ýmissa skilaboða til fylgjenda. Skilaboðin eru þó ólíkt annars eðlis líkt og sjá má af samanburði eftirfarandi færslna.

Mannakorn dagsins: Sálmarnir 145:15-16Allra augu vona á þig, þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma, lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.

Posted by Kirkjan on Sunday, February 7, 2016

Við viljum minna landsmenn á að bolludagurinn er kristin hátíð. Flengingarnar vísa til þess þegar Kristur var hýddur og...

Posted by Ríkiskirkjan on Monday, February 8, 2016

Leiðrétta ekki misskilninginn

Ljóst er af athugasemdum við færslur „Ríkiskirkjunnar“ að margir þeir sem sett hafa fylgi sitt við síðuna virðast standa í þeirri trú að Þjóðkirkjan standi fyrir síðunni. Þeir eða sá sem að síðunni stendur svarar ýmsum athugasemdum án þess þó að leiðrétta þann misskilning sem virðist ríkja meðal margra síðugesta.

Vert er þó að taka fram, að sé smellt á „About“ hnappinn má sjá þar yfirlýsingu um að síðan sé ekki á vegum Þjóðkirkjunnar. Kemur þar einnig fram að „Ríkiskirkjan“ hafi verið stofnuð árið 1000 og sé „bara að þessu fyrir peninginn“.

Uppfært 12.21

Breytt hefur verið um merki á Facebook-síðu „Ríkiskirkjunnar“. Enn er þó vísað á vefsíðu Þjóðkirkjunnar undir heimasíðuflipa á síðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert