Segja skýrslu Bændasamtakanna villandi

Samtök verslunar og þjónustu segja skýrslu Bændasamtakanna villandi.
Samtök verslunar og þjónustu segja skýrslu Bændasamtakanna villandi. mbl.is/Kristinn

Samkvæmt Samtökum verslunar og þjónustu orkar margt í nýrri skýrslu Bændasamtaka Íslands um matvöruverð á Íslandi tvímælis. „Ýmislegt í skýrslunni virðist beinlínis vera sett fram til að draga upp villandi og beinlínis ranga mynd af matvörumarkaðnum. Meginhlutverk skýrslunnar virðist vera að varpa rýrð á dagvöruverslunina í landinu í stað þess að skoða í raun hvernig staðið er að verðmyndun matvæla og þá sérstaklega landbúnaðarafurða hérlendis,“ segir í svari SVÞ við skýrslu BÍ.

Frétt mbl.is: Fleiri njóti en verslunarfyrirtæki

Í úrdrætti úr svarinu, sem sendur var á fjölmiðla, segir m.a. að í skýrslu BÍ sé ekki leitað skýringa á verðhækkunum á einstaka vöruflokkum á síðustu árum, né breytinga á greiðslum frá afurðastöðum.

„Samtökin láta einnig ógert að minnast á þátt birgja í verðmyndun á smásölumarkaði, en sá kostnaður skiptir verulegu máli við verðútreikning. Það er vægast sagt undarlegt að jafn mikilvægum þætti sé sleppt í skýrslu BÍ, sérstaklega þar sem birgjar dagvöruverslunarinnar í mjólkurafurðum, grænmeti, alifuglakjöti, lambakjöti og svínakjöti eru allt frá einum til þriggja. Á þessum markaði ríkir fákeppni og það dregur mjög úr trúverðugleika skýrslunnar að Bændasamtökin ákveði að sneiða fram hjá jafn mikilvægum þáttum í skýrslu sinni.“

Frétt mbl.is: Svívirðileg framsetning hjá Sindra

Þá segir í svari SVÞ að Bændasamtökin dragi þá röngu ályktun að arðsemi í matvöruverslunum á Íslandi sé almennt góð og hafi farið batnandi á árunum 2011 til 2013. „Allt annað er uppi á teningnum þegar árin eftir 2013 eru skoðuð, bæði hvað varðar arðsemi skráðra dagvöruverslana hérlendis og í Evrópulöndunum. Þessi framsetning BÍ er enn eitt dæmið um sérkennileg vinnubrögð við gerð skýrslu um matvöruverð á Íslandi.“

„Bændasamtökin halda því fram að verð á innfluttri matvöru hafi hækkað meira en verð á innlendri búvöru, auk þess sem vöruverðið hafi verið gífurlega sveiflukennt. SVÞ gagnrýna harlega þessa framsetningu BÍ sem gefur langt í frá rétta mynd af verðþróun innfluttra matvæla. Reiknuð vísitala innfluttra vara sem tekur tillit til gengisáhrifa, erlendrar verðbólgu, innlendum launakostnaði og öðrum innlendum kostnað sýnir svo ekki er um villst að álagning í dagvöruverslunum hefur farið lækkandi,“ segir í úrdrættinum.

Ítarlegt svar Samtaka verslunar og þjónustu vegna skýrslu Bændasamtakanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert