Þrjú verkefni keppa um Eyrarrósina

Dorrit Moussaieff forsetafrú afhendir Eyrarrósina í ár líkt og fyrri …
Dorrit Moussaieff forsetafrú afhendir Eyrarrósina í ár líkt og fyrri ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menningar- og fræðslusetrið Eldheimar í Vestmannaeyjum, alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar, sem fram fer í Garði, og Verksmiðjan á Hjalteyri, listamiðstöð með sýningarsali og gestavinnustofur í gamalli síldarverksmiðju Kveldúlfs við Eyjafjörð keppa um Eyrarrósina í ár. 

Í ársbyrjun var tilkynnt hvaða tíu verkefni prýða Eyrarrósarlistann í ár. Það varð svo niðurstaða valnefndar Eyrarrósarinnar 2016 að að verkefnin þrjú komi til greina. 

Hvert verkefnanna þriggja hlýtur peningaverðlaun og flugmiða frá Flugfélagi Íslands. Það kemur svo í ljós 18. febrúar næstkomandi hvert þeirra hlýtur Eyrarrósina 2016. Þá afhendir Dorrit Moussaieff, forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar, verðlaunahafanum 1.650.000 krónur, við hátíðlega athöfn í Frystiklefanum á Rifi.

Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Viðurkenningin hefur verið veitt árlega frá 2005 og er henni ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar. Að henni standa Listahátíð í Reykjavík, Flugfélag Íslands og Byggðastofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert