Andlát: Stefán Gunnlaugsson

Stefán Gunnlaugsson
Stefán Gunnlaugsson

Stefán Héðinn Gunnlaugsson, fv. veitingamaður á Akureyri, lést á Landspítalanum mánudagskvöldið 8. febrúar eftir erfið veikindi á 71. aldursári.

Stefán fæddist á Akureyri 17. mars 1945 og bjó þar alla tíð. Foreldrar hans voru Gunnlaugur Torfason málarameistari frá Birningsstöðum í Laxárdal og Sveinhelga Steinunn Stefánsdóttir húsmóðir frá Vík í Héðinsfirði.

Stefán öðlaðist meistararéttindi í framreiðslu 1969 og stundaði veitingastörf í Sjálfstæðishúsinu á Akureyri (Sjallanum) frá námsárunum til 1976 og rak húsið um skeið.

Hann stofnaði veitingahúsið Bautann á Akureyri, ásamt þremur öðrum, 1971 og var framkvæmdastjóri til 2004 þegar hann seldi hlut sinn í fyrirtækinu.

Stefán stundaði fasteignasölu í nokkur ár á áttunda áratugnum og aftur 2006 til 2008.

Stefán starfaði í áratugi fyrir Knattspyrnufélag Akureyrar og var gerður að heiðursfélaga 2008. Hann var formaður félagsins 1970 og aftur 2008 til 2010, formaður handknattleiksdeildar í eitt ár fyrir margt löngu og var í stjórn knattspyrnudeildar í 15 ár frá stofnun hennar, 1975 til 1990, þar af formaður í tíu ár, m.a. þegar KA varð Íslandsmeistari í knattspyrnu í fyrsta skipti 1989. Stefán var formaður byggingarnefndar KA-heimilisins sem vígt var 1986. Hann sat tæpan áratug í stjórn Knattspyrnusambands Íslands, 1990-1999. Hann bar gullmerki KA, KSÍ og Íþróttasambands Íslands.

Stefán var aðalhvatamaður að stofnun Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri í árslok 2013 og stjórnarmaður frá upphafi.

Eiginkona Stefáns er Hugrún Engilbertsdóttir hjúkrunarfræðingur, dóttir Engilberts Guðjónssonar, múrarameistara á Akranesi, og Evu Laufeyjar Eyþórsdóttur húsmóður. Börn Stefáns og Hugrúnar eru Gunnlaugur Torfi, tónlistarmaður í Reykjavík, Eva Laufey, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir á Akureyri, Stefán Héðinn, viðskiptafræðingur á Seltjarnarnesi, og Davíð, viðskiptafræðingur í Kópavogi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert