Sjálfsagt að vélarnar hafi aðstöðu

Bandarískir hermenn og herflugvél í flugskýli í Keflavík árið 2002.
Bandarískir hermenn og herflugvél í flugskýli í Keflavík árið 2002. mbl.is/RAX

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir það sjálfsagt að þær herflugvélar sem fari um Ísland hafi viðunandi aðstöðu. Hann segir nýja herstöð eða annað í þeim dúr ekki vera í undirbúningi á gamla varnarsvæðinu.

„Við vitum af þessari loftrýmisgæslu sem hefur verið hér undanfarin ár, nokkrum sinnum á ári. Við vitum af þessum kafbátaleitarvélum sem koma stundum í tengslum við þessa gæslu. Ég hef heyrt af því að aðstaðan hafi ekki verið nægilega góð fyrir þær vélar,“ segir Kjartan Már.

Hann bætir við að þessar fregnir um að Bandaríkjaher vilji gera upp flugskýli sem Landhelgisgæslan hefur haft afnot af komi sér því ekki á óvart. „Þeir vilja að þessar kafbátavélar komist inn í skýlið þannig að það sé hægt að þjónusta þær hér á landi. Það er ekkert verið að tala um að opna hér nýja herstöð eða eitthvað slíkt,“ segir Kjartan, sem hafði samband við utanríkisráðuneytið vegna fréttaflutnings Bandaríkjamanna. Upplýsingarnar frá ráðuneytinu segir hann að hafi staðfest hans vitneskju.

„Við erum með þennan flugvöll og það fara herflugvélar hér um og þess vegna er sjálfsagt að þær hafi viðunandi aðstöðu.“

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert