Mældist með 3,01 prómill í blóðinu

Áfengismagn í blóði mannsins mældist 3,01 prómill.
Áfengismagn í blóði mannsins mældist 3,01 prómill.

Maður á fertugsaldri hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og hótað lögreglumanni lífláti. Mældist vínandamagn mannsins 3,01 prómill þegar hann var mældur eftir handtöku.

Í ákærunni segir að maðurinn hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að stöðva aksturinn heldur ekið áfram uns hann var stöðvaður í íbúðagötu í Kópavogi. Var hann færður á lögreglustöðina við Dalveg, en þar hótaði hann lögreglumanni lífláti og er því einnig ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni.

Sveinbjörn Kristjánsson, verkefnastjóri á deild áhrifaþætta heilbrigðis hjá Landlækni, segir aðspurður að 3,01 prómill séu mjög mikið magn áfengis í blóði. Segir hann að það fari auðvitað eftir hverjum og einum og meðal annars þyngd viðkomandi hversu mikið áfengi viðkomandi þurfi að drekka til fara upp í þetta magn vínanda í blóði. Þá geti einnig áfengisþol viðkomandi haft að segja með hversu mikið magn hann geti drukkið áður en hann verði áfengisdauður.

„Venjulegur maður sem drekkur væri náttúrulega áfengisdauður,“ segir Sveinbjörn aðspurður um þessar tölur. Þá segir hann líka skipta máli yfir hversu langan tíma áfengið var drukkið, en ef um sé að ræða langan tíma þurfi mun meira áfengi þar sem líkaminn brjóti áfengið niður yfir tíma. Engu að síður væri alltaf um mjög mikið magn að ræða.

Til að setja vínandamagnið í samhengi þyrfti karlmaður í meðalþyngt að drekka um eitt skot af sterku áfengi á hverri mínútu í eina klukkustund til ná 3,01 prómilli samkvæmt útreikningum í reiknivél fyrir vínanda. Þá er fólk hér á landi svipt ökuréttindum og sektað ef áfengismagn fer yfir 0,5 prómill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert