Verja 2,7 milljörðum á Íslandi

P-8A eftirlitsflugvél.
P-8A eftirlitsflugvél. Ljósmynd/Bandaríski sjóherinn

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur farið fram á samtals 21,4 milljónir dollara fjárframlagi til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli fyrir hönd bandaríska flotans vegna fyrirhugaðs aukins varnarviðbúnaðar á Íslandi eða sem nemur rúmlega 2,7 milljörðum króna.

Fram kemur á vefsíðu varnarmálaráðuneytisins að til standi að verja 14,6 milljónum dollara til þess að gera nauðsynlegar breytingar á flugskýli á Keflavíkurflugvelli til þess að hægt verði að koma P-8 eftirlitsflugvélum fyrir í því en flugskýlið var á sínum tíma notað fyrir P-3 Orion eftirlitsflugvélar. Meðal annars þarf að breyta dyrunum flugskýlisins til þess að P-8A Poseidon flugvélarnar komist inn í það en stélin á þeim eru hærri en á P-3 vélunum.

Frétt mbl.is: Skoða mannvirki á öryygissvæðinu

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu ráðuneytisins er ætlunin að P-8A eftirlitsflugvélarnar geti sinnt stuttum eftirlitsferðum. Fyrir utan breytingar á dyrum flugskýlisins þurfi að koma rafmagnsmálum þannig fyrir að hægt sé að þjónusta flugvélarnar og mála línur á flugvöllinn. Einnig þurfi að styrkja gólfið í flugskýlinu vegna þyngdar P-8A vélanna. Þá þurfi að koma upp viðeigandi hreinsiaðstöðu fyrir flugvélarnar í kjölfar eftirlitsflugs.

Gert er ráð fyrir að 5 milljónir dollara fari í að koma upp nauðsynlegri hreinsiaðstöðu og 1,8 milljón í skipulags- og hönnunarvinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert