„Ég bjargaði mömmu“

Karen Sæberg Guðmundsdóttir er aðeins sjö ára gömul en hefur þó þegar afrekað mikið á lífsleiðinni. Í dag var Karen sæmd titlinum Skyndihjálparmaður ársins af Rauða krossi Íslands fyrir að bjarga lífi móður sinnar þann 8. ágúst 2015.

„Hún er með flogaveiki og var í heita pottinum og ég tók hausinn á henni upp úr vatninu,“ segir Karen þegar hún er beðin að lýsa atvikinu. 

Karen og Margrét voru í pottinum ásamt Júlíusi, fimm ára nágranna þeirra, þegar Margrét fékk flogakast. Hún lýsir því á þá leið að hún hafi ekkert getað gert en sem betur fer hafi Karen tekið eftir því að ekki væri allt með feldu. Karen hélt höfði móður sinnar upp úr vatninu svo hún gæti andað og sendi Júlíus að ná í föður hennar. 

„Hún er nokkuð klár í þessu,“ segir Margrét um skyndihjálparkunnáttu Karenar. 

„Ég er búin að vera með þetta frá því áður en hún fæddist og ég keypti einu sinni DVD diskinn um hann hjálpfús - fyrir þremur árum síðan þegar ég var inni á á Borgarspítala - í Rauða kross búðinni,og það er mikið  búið að horfa á hann. Það hefur virkað.“

Það þarf ekki að koma á óvart að Margrét er gríðarlega stolt og þakklát dóttur sinni. Hún segist alveg hafa hætt að tuða í henni um heimanámið. „Þessi er búin að bjarga lífi móður sinnar, svo hún er bara hetjan mín.“

Það var Árni Sæberg, ljósmyndari mbl.is, sem myndaði athöfnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert