Fauk hressilega í borgarstjóra

Dagur er ekki ánægður með viðbrögð Fellaskóla.
Dagur er ekki ánægður með viðbrögð Fellaskóla. mbl.is/Golli

„Ég skipti ekki oft skapi en viðurkenni það fauk hressilega í mig við að lesa þessa frétt í morgun. Svona gerir maður ekki,“ skrifar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, við frétt Vísis af barni sem var meinað að taka þátt í pítsuveislu í Fellaskóla á föstudag.

11 ára stúlka sem ekki er í mataráskrift hjá Reykjavíkurborg, og mætir því með nesti alla jafna, mætti með 500 krónur í skólann í gær þar sem móðir hennar vildi leyfa henni að gera sér dagamun á Öskudag og borða pítsu með hinum börnunum í mötuneytinu. Starfsfólk mötuneytisins neitaði henni hinsvegar um pítsuna og sömu svör gaf skólastjórinn, Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, sem staðfesti við Vísi að aðeins nemendur í mataráskrift fengju pítsuna.

Borgarstjóri segir í færslu um fréttina á Facebook síðu sinni að það hafi verið skýr sýn og stefna borgarinnar að engum sé vísað úr matarröðinni, hvorki vegna efnahags né annarra ástæðna. Það hafi líka ítrekað komið fram í upplýsingum úr skólunum að þannig sé á málum haldið.

„Ég tek þetta sérstaklega nærri mér því Fellaskóli hefur verið í stórsókn undanfarin ár og ég er mjög stoltur af því starfi og árangri sem starfsfólk og stjórnendur, nemendur og fjölskyldur þeirra hafa skilað,“ skrifar borgarstjóri.

„ Við eigum að skapa samfélag fyrir alla og þar sem allir eru með. Það er sérstaklega mikilvægt í skólunum. Ef þetta er vafamál í einhvers huga þá eigum við að hnykkja á því.“

Dagur lýkur færslunni með því að segjast hafa óskað formlega eftir skýringu á atvikinu frá Skóla- og frístundasviði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert