Gjaldtakan í Námafjalli dæmd ólögmæt

Hefur þótt óumdeilt að staðirnir eru vinsælir viðkomustaðir ferðamanna.
Hefur þótt óumdeilt að staðirnir eru vinsælir viðkomustaðir ferðamanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur hefur dæmt gjaldtöku Landeigenda Reykjahlíðar ehf. ólögmæta auk þess sem hann hefur staðfest lögbann sem sett var á hana. Staðfestir Hæstiréttur með þessu dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl á síðasta ári.

Frétt mbl.is: Gjald fyrir aðgang að náttúruperlum óheimilt

Í málinu krafðist hluti landeigenda þess að einkahlutafélagi, sem nefnist Landeigendur Reykjahlíðar, væri óheimilt að innheimta gjald fyrir aðgang að Hverum við Námafjall og Leirhnjúk í landi Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi. Hefur þótt óumdeilt að staðirnir eru vinsælir viðkomustaðir ferðamanna.

Taldi sameigendur ekki hafa afsalað rétti sínum

Reistu landeigendurnir sex, sem höfðuðu málið gegn Landeigendum Reykjahlíðar ehf., kröfu sína einkum á því að samþykki allra sameigenda að jörðinni þyrfti til gjaldtökunnar, en fyrir lá að þeir ættu tæpan 30% hlut í jörðinni, sem var að mestum hluta í óskiptri sameign eigendanna.

Með hliðsjón af samþykktum einkahlutafélagsins og tilgangi þess taldi Hæstiréttur að sameigendur jarðarinnar og stefnendur í málinu hefðu ekki afsalað til félagsins rétti til þess að taka ákvarðanir um sameignina sem teldust meiriháttar eða óvenjulegar, enda hefði þurft að orða slíkt afsal með ótvíræðum hætti.

Frá Námafjalli. Ótvírætt samþykki allra eigenda þurfti til að mati …
Frá Námafjalli. Ótvírætt samþykki allra eigenda þurfti til að mati Hæstaréttar. mbl.is/RAX

Ótvírætt samþykki þurfti til

Þá féllst Hæstiréttur ekki á það með einkahlutafélaginu að eigendur jarðarinnar hefðu samþykkt gjaldtökuna á vettvangi félagsins. Ákvörðun um að hefja gjaldtöku af ferðamönnum og mynda þannig tekjur af sameigninni hefði falið í sér breytingu á nýtingu hennar sem væri meiriháttar.

„Samkvæmt reglum um sérstaka sameign þyrfti til hennar ótvírætt samþykki allra sameigenda, og nægði því ekki það hlutfall atkvæða sem hafði samþykkt tillögu stjórnar félagsins á hluthafafundi árið 2014,“ segir í dóminum.

Fái eina milljón króna hver

Hæstiréttur taldi því að gjaldtaka félagsins hefði verið ólögmæt auk þess sem staðfest var lögbann sem hafði verið lagt á gjaldtökuna.

Þá segir í dómi Hæstaréttar að áfrýjandinn, Landeigendur Reykjahlíðar ehf., skuli greiða landeigendunum sex hverjum fyrir eina milljón króna í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert