Hæg atburðarás undir Bárðarbungu

Páll Einarsson.
Páll Einarsson. mbl.is/Ómar

Atburðarásin undir Bárðarbungu er hæg og svo virðist sem djúpt sé á henni eða um 10-15 km.

„Þetta veldur því að öll merki sem sjást verða dauf,“ sagði Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. „Það er ljóst að skjálftavirkni í Bárðarbungu fer heldur vaxandi. Hún náði ákveðnu lágmarki í haust en hefur vaxið síðan.“ Vegna þess hvað atburðirnir eru djúpt í jörðu dreifist landrisið yfir stórt svæði. Enn eru margir óvissuþættir og jafnvel mótsagnakenndir varðandi það sem virðist vera að gerast í eldstöðinni. Páll sagði að menn séu þess vegna hikandi við að túlka merkin sem berast á mjög afgerandi hátt.

Sama gildir um Bárðarbungu og Heklu að mest er að marka hegðun eldfjallanna til langs tíma.

„Mælingar sem við höfum benda til þess að það hafi verið þensla í Heklu alveg síðan í síðasta gosi árið 2000,“ sagði Páll. Síðasta mæling var gerð í haust og hún sýndi áframhaldandi þenslu. Allt bendir til þess að Hekla hafi verið tilbúin fyrir nýtt eldgos allt frá árinu 2006.

Til eru samfelldar mælingar á landrisi við Næfurholt frá því fyrir eldgosið 1991. Þær sýna að Hekla rís fram að gosi og sígur svo þegar fer að gjósa. Hún fór strax aftur að rísa eftir gosið 1991 og reis fram til ársins 2000. Þá var hún komin í sömu hæð og fyrir gosið 1991. Gosið kom á réttum tíma 2000 og Hekla seig. Hún fór strax að rísa aftur eftir það gos og var komin í svipaða hæð og fyrir gosin 1991 og 2000 árið 2006. Síðan hefur hún risið fram yfir það. Það þarf þó ekki að þýða að næsta gos í Heklu verði stærra en fyrrgreind eldgos, að sögn Páls.

„Hekla er búin að safna í sarpinn og þrýstingurinn nú ætti að vera nægur til að koma gosi upp. Það er eins og það þurfi hálfgerða tilviljun til að koma henni af stað,“ sagði Páll. Hann minnti á að fyrirvarinn á Heklugosum hefði verið allt frá 15 mínútum og upp í 79 mínútur samkvæmt mælingum á upphafi fjögurra síðustu Heklugosa, þ.e. 1970, 1980, 1991 og 2000. Hún geti því gosið hvenær sem er og það með skömmum fyrirvara. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert