Önnur verkfræðistofa metur myglu

Háskóli Íslands ætlar að fá aðra verkfræðistofu til að meta …
Háskóli Íslands ætlar að fá aðra verkfræðistofu til að meta ástandið í Eirbergi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Háskóli Íslands ætlar að fá aðra verkfræðistofu en Verkís til að meta hvort meiri myglu sé að finna í Eirbergi, húsnæði hjúkrunarfræðideildar HÍ við Eiríksgötu.

„Við viljum sannfæra okkur enn betur um hvert ástandið er á húsinu,“ segir Guðmundur Ragnar Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstur hjá Háskóla Íslands.

Í október 2015 framkvæmdi Verkís sýnatöku á átján stöðum í Eirbergi þar sem starfsemi hjúkrunarfræðideildarinnar fer fram. Niðurstöður loftsýna töldust góðar en mygla greindist á þremur stöðum. Niðurstöður sýnatökunnar sýndu að ástand hússins var talið í lagi, að því er kom fram í pósti sem deildarstjóri hjúkrunarfræðideildar sendi nemendum.

Vinnuhópur óskað eftir frekari mælingum

Þar kemur fram að fjallað hafi verið um málið á deildarfundi og deildarráðsfundi á síðasta ári en  nemendur eiga fulltrúa á fundunum og fá sendar fundargerðir. Í síðasta mánuði var settur saman vinnuhópur með þremur fulltrúum hjúkrunarfræðideildar, fulltrúum nemenda og aðila frá Framkvæmda- og tæknisviði Háskóla Íslands. Þar var óskað eftir því að framkvæmdar yrðu frekari mælingar varðandi mögulega myglu, auk þess sem kanna átti loftgæði betur í Eirbergi.

Viljum leita enn betur 

„Fólk vildi meina að þessi mygla væri víðar en þessi úttekt [frá Verkís] leiddi ekkert slíkt í ljós. En við ætlum að fá annan aðila til að fara aftur yfir húsið og leita enn betur. Við viljum fyrir alla muni komast að því ef það er mygla þarna og grípa til viðeigandi ráðstafana,“ segir Guðmundur Ragnar.

„Við höfum dæmi um að starfsfólk telji sig finna fyrir áhrifum af myglu í húsinu og getum ekki annað en endurtekið þessar mælingar og leitað betur.“

Kvartaði yfir myglunni 

Stutt er síðan Inga María Árnadóttir, varamaður í sviðsráði heilbrigðisvísindasviðs HÍ, skrifaði grein á Vísi þar sem hún vakti athygli á myglunni í Eirbergi. Þar sagði hún marga nemendur og starfsmenn hússins hafa kvartað undan „síþreytu, einbeitingarleysi og stöðugum veikindum“.

Frétt mbl.is: Mygla á deild með nýfæddum börnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert