Slasaðist við að forða sér undan geitungi

Mynd/Faxaflóahafnir

ISS á íslandi var í gær dæmt til að greiða starfsmanni sínum skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í störfum sínum hjá fyrirtækinu að Grundartanga. Viðkomandi hafði dottið um poka þegar hún var að forðað sér undan geitungi.

Slysið varð í lok maí 2012 er konan, sem varð fyrir óhappinu, var við vinnu sína sem starfsmaður ISS í viðbyggingu við baðhús Elkem á Grundartanga. Er slysinu lýst svo í stefnu að konan hafi verið stödd í móttöku baðhússins, ásamt samstarfsmanni sínum, þegar geitungur kom þar fljúgandi að henni í andlitshæð. Við þetta hafi henni brugðið mjög og snúið sér snöggt undan. Hafi hún þá fallið um poka sem fallið hefði þar á gangveginn. Hafi hún dottið fram fyrir sig en náð að bera hendurnar fyrir sig. Eftir slysið var hún skoðuð og meðhöndluð á slysadeild sjúkrahússins á Akranesi.

Samkvæmt örorkumati fékk konan áverka á báða olnboga og hlaut varanlega 15% örorku en var óvinnufær um tíma vegna slyssins.

Þegar slysið varð var konan flokkstjóri hjá ISS við ræstingar o.fl. í starfsstöð Elkem Ísland hf. á Grundartanga. Slysið varð vegna stafla af þvottapokum á útgönguleið út úr baðhúsinu og var ISS gert að greiða henni skaðabætur sem nemur tveimur þriðju af tjóninu sem hún varð fyrir. Jafnframt var ISS dæmt til að greiða henni eina milljón króna í málskostnað.

Þótti dómara við Héraðsdóm Vesturlands sýnt að ISS hafi ekki tryggt sem best að umrædd gönguleið væri greiðfær og hindranalaus verði fallist á það með konunni að ISS  hafi ekki nægilega sinnt skyldum sínum við að tryggja öryggi á vinnustaðnum og að sú vanræksla hafi átt þátt í að hún varð fyrir umræddu slysi.

 Hins vegar ver horfa til þess að konan sem flokkstjóri ISS á svæðinu í nokkurn tíma, þekkti sjálf mjög vel allar aðstæður á staðnum og hefði því átt að sýna meiri aðgæslu með tilliti til vitneskju sinnar um það hvernig frágangi þvottapoka við gönguleiðina var háttað. Því var hún látin bera þriðjung af tjóni sínu sjálf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert