„Þetta er helför“

Móðir með ung börn í Moria flóttamannabúðunum.
Móðir með ung börn í Moria flóttamannabúðunum. Ljósmynd/ Magnea Björk Valdimarsdóttir

Magnea Björk Valdimarsdóttir er á leið til eyjunnar Lesbos í annað skipti. Hún segist finna sterkt fyrir því hve nauðsynlegt sjálfboðastarf við móttöku flóttafólks er og hafnar alfarið allri orðræðu um velgjörðatúrisma á svæðinu.

„Þetta er hvorki sætt né fallegt“ segir Magnea um aðstæður á Lesbos. „En það er auðvitað stjórnvöldum í hag að tala niður sjálfboðliðastarf sem er núna verið að reyna að gera ólöglegt í Grikklandi. Ástandið á grísku eyjunum væri hræðilegt ef ekki væri fyrir fólk sem kemur til hjálpar öðrum manneskjum sem þurft hafa að flýja hræðilegt stríð sem geisar í heimalandi þeirra. Þetta er helför.“

Magnea segist hafa upplifað þörfina bæði á hjálpargögnum og sjálfboðaliðum á Lesbos á eigin skinni, m.a. síðasta daginn sinn á eyjunni. Dagurinn hófst í flóttamannabúðunum Moria þar sem hún sá unga móður með glóðarauga og skurði í andlitinu halda á tveggja ára barni sínu sem var einnig eins illa leikið í framan.  Þau fengu ekki pláss inni á fjölskyldusvæðinu vegna plássleysis eins og fjölmargir sem þurfa að vera í tjöldum í óöruggari aðstæðum.

„Svo byrjar kvöldvaktin og þá förum við á suðurströndina á Lesbos og erum viðbúin að taka á móti bátum um kvöldið og fram á nótt. Við erum að rúnta um í myrkrinu ásamt öðrum bílum með nætursjónauka, fullan bíl af snarli, neyðarteppum, skóm, sokkum, húfum og vettlinga til skiptana.  Svo erum við komin svolítið utarlega á vaktsvæðinu og þá sjáum við fólk koma fótgangandi í myrkrinu. Par með barn í fanginu og annar maður,“ segir Magnea.

„Við tökum þau upp í bíl og náum að skilja með handapati að það er bátur kominn, í myrkrinu, utar á höfðanum í köldu veðri og vindi. Ef við hefðum ekki verið þarna hefðu þau þurft að ganga til höfuðborgarinnar og þaðan eru fjöldamargir kílómetrar inni í flóttamannabúðirnar. Svo vorum við að ferja fólk fram eftir nóttu yfir í Moria en mikilvægt er að stía fjölskyldum aldrei í sundur.“

Hún segir barnið sem var með parinu hafa verið í miklu áfalli, með stöðug tár í augum og eins og í losti. Það sé ein af mörgum skelfilegum myndum sem hún muni af eyjunni en á móti komi sá mikli kærleikur, vinátta og ást sem stafi af flóttafólkinu.

„Þau eru svo sterk og full af von því það er í raun kraftaverk að lifa þetta af.“

Ljósmynd/ Magnea Björk Valdimarsdóttir

Eins og meðvituð morð

Magnea hafði fylgst náið með málefnum hælisleitenda á Íslandi áður en hún ákvað að fara fyrst út síðastliðið haust og segist hún að endingu ekki hafa getað setið á sér. „Ég bara þurfti að gera eitthvað. Ég gat ekki setið heima hjá mér lengur og fylgst með hörmungum á netinu.“

Magnea starfaði með Ástu Hafþórsdóttur og Mayu Al Saud, sýrlenskri konu sem búsett er í Noregi en þær unnu bæði sjálfstætt og fyrir norsk samtök sem vinna nyrst á eyjunni.

„Við ferðuðumst með varning um eyjuna, tókum á móti bátum í norðri og suðri og unnum í Moria flóttamannabúðunum en þar ætla ég að starfa aftur núna.“

Hún segir ekki gott ástand í búðunum og að þörfin sé mikil. Til að mynda hafi kall borist í gær þar sem skó er tekið að skorta og segir Magnea það hrörlegt skjól sem tekur á móti flóttafólkinu sem kemur kalt, blautt og hrakið úr bátunum frá Tyrklandi.

„Sjálfboðaliðarnir og fjöldamargir Grikkir á eyjunum hafa unnið mikilvægt starf en það er eins og Evrópsk stjórnvöld séu meðvitað að myrða fólk með því að loka landamærunum.“

Kaupir mat og skó

„Ég er búin að kaupa það sem ég veit að þarf alltaf, húfur, vettlinga, sokka og bakpoka,“ segir Magnea um þær vistir sem hún tekur með til Lesbos en þar er hún ekki að telja upp aukaföt á sjálfa sig. Hún hefur nefnilega boðað til söfnunar á Facebook síðunni „VON fyrir flóttafólk” og mun allt það fé sem safnast renna beint til kaupa á hjálpargögnum.

„Það barst kall eftir skóm í gær og svo hef ég talað um það á síðunni að kaupa svefnpoka og glaðning fyrir börnin. Það er barnatjald í búðunum þar sem er unnið ótrúlegt starf.“

Magnea segir afþreyingu og uppörvun fyrir börn og fullorðna geta skipt sköpum í Moria. Þegar búið er að sinna sárasta hungrinu og mesta kuldanum þarfnist fólk hvíldar til að leika sér og til þess að vera manneskjur.

 „Fyrsta kvöldið í Moría varð ég vitni að móður að klippa neglurnar á barninu sínu. Það var varðeldur í tunnu og drulla út um allt, kúlutjöld á strjáli hér og þar en barnið hló innilega– eins og það væri að hverfa aftur í daglega rútínu. Það er það sem þarf.“

Magnea hyggst leyfa þeim sem styðja við átakið að fylgjast með hvað hún kaupir í gegnum Facebook en ljóst er að það verður breytilegt og mun byggjast alfarið á þörfum þegar á staðinn er komið. Hún þorir þó að fullyrða að fjármagnið muni alfarið renna í hlýjan fatnað, skó og mat fyrir matartjöldin á svæðinu.

Móðir þessara barna frá Sýrlandi á sjö börn. Hún er …
Móðir þessara barna frá Sýrlandi á sjö börn. Hún er ein á ferð með fimm börn sem eru undir átta ára aldri. Hin tvö urðu eftir í Sýrlandi með pabbanum. Þau vonast til að geta sameinast á ný einn daginn. Ljósmynd/ Magnea Björk Valdimarsdóttir

Líka á okkar ábyrgð

Aðstæður á Lesbos eru erfiðastar fyrir flóttafólkið en þær taka þó einnig mikið á sjálfboðaliðana. Magnea er tveggja barna móðir í fullu námi í kvikmyndagerð í Marseille og er því ekki úr vegi að spyrja hvort hún hafi ekki nú þegar lagt sitt af mörkum með því að fara einu sinni til eyjarinnar.

„Það er ekki annað hægt að gera. Þetta er eins og að horfa upp á einhvern barinn við hliðina á manni án þess að gera neitt og það er sú knýjandi þörf sem drífur mig áfram.“

Magnea segir það skyldu almennings að bregðast við. Mikilvægt sé að fólk hætti að hugsa um sig útfrá þjóðerni og hugsi út fyrir landamæri, sem ábyrgir þegnar í alþjóðasamfélaginu.

„Mér finnst ákveðin hræsni að stjórnvöld á Íslandi stæri sig af því að taka á móti 30 kvótaflóttamönnum í ársbyrjun þegar þau hafa sent 200 hælisleitendur í burtu. Við þurfum að bregðast við heima fyrir, ekki með fölskum loforðum heldur með því að spýta virkilega í lófana. Þetta er líka á okkar ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert