Varhugavert ferðaveður á Austurlandi

Ófært er um Fagradal, Fjarðarheiði og Vatnsskarð eystra.
Ófært er um Fagradal, Fjarðarheiði og Vatnsskarð eystra. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Austan til á landinu er hvassviðri og vindur allt að 10-18 metrar á sekúndu. Veðurstofan varar við því að ferðaveður á svæðinu sé varhugavert. „Það eru alhvassir vindar og með því kemur skafrenningur og getur því orðið blint,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Að sögn Birtu er líka snjókoma á svæðinu og dimmt á köflum. „Um leið og þú ert kominn út á veginn og yfir heiðar og slíkt getur þetta orðið nokkuð blint og erfitt. Við viljum bara benda fólki á að athuga aðstæður og kíkja á heimasíðu Vegagerðarinnar til að sjá nákvæmlega hvernig færðin er.“

Samkvæmt vef Vegagerðarinnar klukkan 9:50 er ófært á Fjarðarheiði, Fagradal og Vatnsskarði eystra og beðið með mokstur, annars er snjóþekja og hálka víða á vegum og snjókoma. Hált er á Möðrudalsöræfum og krap og snjóþekja á Vopnafjarðarheiði. Með ströndinni suðaustanlands er krap og snjóþekja.

Að sögn Birtu er vindur og úrkoma áfram á svæðinu út daginn en það dregur úr veðrinu þegar það líður á morgundaginn.

Hér má sjá veðurvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert