Áhlaup á Landsbankann „neytendamál“

Við vegfarendum um Hringbraut í dag blasti skilti með orðunum „Tæmum Landsbankann.“ Skiltið er á ábyrgð Skiltakarlanna en Ólafur Sigurðsson skiltakarl segir áhlaup á Landsbankann einu leiðina fyrir almenning til þess að hafa áhrif á gang mála.

„Við höfum ekkert annað. Fólk hefur engin lýðræðisleg úrræði önnur en samtakamáttinn. Þetta er neytendamál og svona gerir fólk á norðurlöndunum ef menn haga sér svona í bönkum eða verslunum, þá verslar enginn lengur við þann stað.“ Ólafur segir skorta neytendavitund og samstöðu almennings hér á landi en eina úrræði almennings gagnvart spillingu sé að flytja fé sitt í öruggt skjól. „Ef fólk stendur saman getum við kannski gert þetta, við höfum ekkert annað.“

Til hvaða ráða segja skiltakarlar almenning eiga að grípa í stað viðskipta við Landsbankann? „Fólk flytji hreinlega peninginn í Sparisjóð Strandamanna, sem hefur ekki komið upp í umræðu um spillingarmál eða vandamál,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is. „Þeir hafa haldið sínu.“

Almenningur grípi til eigin ráða

„Við erum að auglýsa í útvarpinu, með skilti á götunum í dag og aðgerðir í Landsbankanum helgina þar á undan,“ sagði Ólafur um herferð þeirra skiltakarla. Þeir krefjast afsagnar Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, vegna Borgunarmálsins. Bankasýsla ríkisins verði þar að auki að beita sér til þess að stöðva þá spillingu sem sé orðin augljós í bankanum.

Skiltakarlarnir hafa verið viðloðnir mótmæli áður, „hjálpað krökkunum með skilti og svona“ eins og Ólafur segir það, en nú hafa þeir ákveðið að grípa sjálfir í skiltin og beita sér fyrir breytingum. „Ég er 62 og Leifur er að verða sextugur og við erum bara þreyttir á þessu. Fólk verður að fara að gera eitthvað. Við höfum ekkert annað en okkur sjálf.“

Siðferðisbreyting í stjórnsýslunni

Ástandið á Íslandi segir Ólafur óásættanlegt en hann telur þörf á róttækum breytingum í valdastofnunum landsins. Ungt fólk sjái ekki fyrir sér framtíð hér á landi og því þurfi að breyta. „Það þarf siðferðisbreytingu í stjórnsýslunni. Við fáum vinstristjórn sem lofar öllu fögru og svíkur allt, hægristjórn sem lofar öllu og svíkur allt. Þetta er bara ekkert hægt.“

Einu eygjanlegu von í stjórnmálunum segir Ólafur vera Pírata en hann er afdráttarlaus í vantrausti sínu á hin hefðbundnu stjórnmálaöfl. „Það (Píratar) er eini sénsinn. Þeir eru ekki eins og hinir. Það er vonandi að þeim sem segjast ætla að gera eitthvað sé treystandi en þjófnum sem maður veit að rænir öllu af manni.“

Skiltakarlarnir á Facebook

Landsbankanum í Austurstræti var
Landsbankanum í Austurstræti var "lokað vegna spillingar."
Ríkisstjórnin hefur ekki farið varhluta af mótmælum þeirra Skiltakarla.
Ríkisstjórnin hefur ekki farið varhluta af mótmælum þeirra Skiltakarla.
Sýnishorn af mótmælaskiltum þeirra Skiltakarla.
Sýnishorn af mótmælaskiltum þeirra Skiltakarla.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert