Kanadísk yfirvöld taka upp stafrænar ferðaheimildir

Yfirvöld í Kanada eru að breyta kerfinu hjá sér varðandi komu ferðamanna og frá 15. mars nk. þurfa Íslendingar sem ætla að fara til Kanada að sækja um stafræna ferðaheimild (eTA) sambærilega þeirri sem þarf þegar ferðast er til Bandaríkjanna. 

Til þess að sækja um eTA þurfa ríkisborgarar þeirra ríkja sem ekki þurfa vegabréfsáritun til þess að ferðast til Kanada að sækja um hér. 

Umsækjendur þurfa að framvísa vegabréfsnúmeri, tölvupóstfangi og kreditkortanúmeri.  Ef að umsóknin er samþykkt þá mun stafræna ferðaheimildin gilda að hámarki í fimm ár eða þar til að vegabréfið rennur út. Greiða þarf sjö Kanadadali, um 650 krónur, fyrir umsóknina.

Kanadískir ríkisborgarar eða þeir Kanadamenn sem eru með tvöfalt ríkisfang sækja ekki um eTA heldur verða þeir að ferðast til Kanada á gildu kanadísku vegabréfi. 

Sendiráð Kanada á Íslandi hvetur alla kanadíska ríkisborgara og þá Kanadamenn sem eru með tvöfalt ríkisfang að athuga tímanlega hvort að kanadísku vegabréf þeirra séu enn í gildi áður en lagt er af stað til Kanada, að því er segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert