„Þarf að leggja mat á hugsun bankamannsins“

Frá aðalmeðferð Aurum-málsins í héraði árið 2014.
Frá aðalmeðferð Aurum-málsins í héraði árið 2014. mbl.is/Þórður

Óttar Pálsson, verjandi Lárusar Welding fyrrum bankastjóra Glitnis, fór fram á að sérfróður meðdómari í Aurum-holding málinu myndi víkja sæti í dóminum. Þetta kom fram í milliþingi málsins í dag í héraðsdómi. Óttar sagði að svo virtist sem meðdómarinn hefði ekki þá sérþekkingu sem nauðsynleg væri fyrir málið. Saksóknari var þessu ósammála, en dómari mun á næstunni úrskurða hvort fallist verði á kröfu verjandans eða ekki. Í milliþinginu var einnig tekist á um hvort leiða ætti fyrir dóminn matsmenn sem unnu skýrslu um verðmæti undirliggjandi trygginga Aurum lánveitingarinnar.

Stjórnunarmenntun ekki nægjanleg sérfræðiþekking

Óttar sagði reynslu meðdómarans, Hrefnu Sigríðar Briem, aðallega vera á sviði stjórnunar, en hún er forstöðumaður grunnnáms í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík og vann í fyrirtækjaþjónustu Byrs á árunum 2004-2007. Hún hefur bæði grunnmenntun og meistaragráðu í stjórnun.

Lárus Welding er ákærður í málinu. Hér er hann við …
Lárus Welding er ákærður í málinu. Hér er hann við fyrri aðalmeðferð ásamt verjanda sínum Óttari Pálssyni. mbl.is/Þórður

Í málinu er tekist á um hvort umboðssvik hafi verið framin með lánveitingu til félagsins FS38 til kaupa á bréfum í Aurum og hvort nægjanleg veð hafi verið á bak við þau viðskipti. Sagði Óttar málið snúast um flókin atvik og sjónarmið um stöðu Glitnis fyrir og eftir viðskiptin þar sem Lárusi væri gefið að hafa ekki dregið úr áhættu bankans. Sagði hann mikilvægt að sérfróður meðdómari gæti metið verðmæti Aurum á þeim tímapunkti sem viðskiptin ættu sér stað og farið yfir rekstrarupplýsingar og áætlanir stjórnenda með þær upplýsingar sem lágu fyrir. Þá þyrfti sérfróði dómarinn að greina matsgerðir á virði félagsins, áreiðanleikakannanir og fjölmörg önnur atriði sem kölluðu á sérhæfða þekkingu.

„Það þarf að leggja mat á hugsun bankamannsins“

Sagði Óttar að það væri ekki hverjum manni augljóst hvernig komist væri að þessari niðurstöðu í svona flóknum viðskiptum. „Það þarf að leggja mat á hugsun bankamannsins,“ sagði hann og til þess væri nauðsynlegt að viðkomandi búi yfir sérkunnáttu á fjármálum, áhættustýringu, reynslu af kaupum á fyrirtækjum, valréttum og öðrum fjármálatengdum vörum. Sagði hann að miðað við ferilskrá Hrefnu sem lögð var fyrir í málinu telji Lárus að hún búi ekki yfir þeirri reynslu og menntun sem æskileg sé í svona máli. Sagði Óttar starf hennar hjá Byr í besta falli vera almenns eðlis og ekki uppfylla ákvæði 3. Greinar laga um meðferð sakamála, en þar er kveðið á um sérfróða meðdómendur.

3. grÍ héraði eiga mál samkvæmt lögum þessum undir hina reglulegu héraðsdómstóla.

  • Einn dómari skipar dóm í hverju máli nema svo standi á sem í 3.–5. mgr. segir.
  • Ef deilt er um staðreyndir og dómari telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr getur hann kvatt til tvo meðdómsmenn sem hafa slíka sérkunnáttu.
  • Ef ákærði neitar sök og dómari telur sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi getur dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu.
  • Ef mál er annars umfangsmikið eða sakarefni mjög mikilvægt frá almennu sjónarmiði getur dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu eða tveir héraðsdómarar með einum sérfróðum meðdómsmanni.

Aðrir verjendur í málinu tóku undir málflutning Óttars og bætti verjandi Bjarna Jóhannessonar við að Hrefna hefði til að mynda ekki próf í verðbréfamiðlun. Vísaði Óttar til þess að almennt í þessum málum hefðu sérfróðir meðdómendur verið löggildir endurskoðendur, haft víðtæka starfsreynslu innan bankageirans eða verið fræðimenn t.d. í fjármálum.

Saksóknari segir menntunina passa málinu vel

Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari, sagðist hafna þessari kröfu, en að henni væri þó aðallega beint að ákvörðun dómsformanns. Sagði hann að menntun og reynsla hennar væri viðskiptafræði, en það væri einmitt menntun margra í málinu og það sem málið fjallaði um. Þá vísaði hann til 5. greinar laganna um meðferð sakamála og sagði að þar kæmi fram að dómsformaður stýrði dómi og hún hefði þegar ákveðið að bregðast ekki við athugasemdum verjanda um meðdómarann.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, ásamt aðstoðarkonu sinni í réttarsal …
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, ásamt aðstoðarkonu sinni í réttarsal í þegar Aurum-málið var áður tekið fyrir. mbl.is/Þórður

5. gr. Meðdómsmenn skulu taka sæti í dómi ekki síðar en við upphaf aðalmeðferðar máls. Dómari skal að öðru jöfnu greina aðilum frá því með fyrirvara hverja hann hyggist kveðja til setu í dómi sem sérfróða meðdómsmenn, þannig að aðilum gefist kostur á að gera athugasemdir ef þeir telja efni til.

  • Bókað skal um kvaðningu meðdómsmanna í máli þegar þeir taka fyrst sæti í dómi. Sé maður að gegna starfi sérfróðs meðdómsmanns í fyrsta sinn skal hann um leið undirrita bókun þar sem kemur fram drengskaparheit hans um að hann muni jafnan gegna slíkum störfum af samviskusemi og óhlutdrægni og fara í öllu að lögum.
  • Meðdómsmenn taka þátt í málsmeðferð og dómsuppsögu og hafa sömu réttindi og bera sömu skyldur og dómsformaður í því máli. Dómsformaður stýrir þó dómi, kveður einn upp úrskurði um annað en frávísun máls, gefur út kvaðningar og tilkynningar, heldur þing til uppkvaðningar dóms, annast gerð og staðfestingu dómsgerða og kemur fram út á við fyrir hönd dómsins.
  • Dómsformaður ákveður þóknun sérfróðra meðdómsmanna.

Mismunandi mat á tryggingu lánsins

Saksóknari lagði einnig fram kröfu í málinu, en hann óskaði eftir að ákæruvaldið fengi að leiða fyrir dóminn undirmatsmenn og yfirmatsmenn sem höfðu framkvæmt mat á verðmæti þeirra bréfa sem sett voru að veði fyrir lánveitingunni til Aurum. Sagði Ólafur að mat undirmanna hefði verið að verðmæti bréfanna væri 0-900 milljónir á móti 6 milljarða lánveitingu og mat yfirmatsmannanna að bréfin væru rúmlega 2 milljarðar.

Hefð að fá lögreglumenn

Undirmatið var gert að beiðni slitastjórnar Glitnis vegna einkamáls gegn stjórnendum bankans. Samkvæmt meginreglum um hverjir komi fyrir dóm sem vitni er að viðkomandi hafi upplifað á eigin skinni atburðina sem um er rætt. Þó er undantekning um að sérfróðir aðilar sem aðstoðuðu lögreglu við rannsókn geti komið og t.d. staðfest skýrslur. Vill Ólafur að svo sé gert í þessu máli.

Benti hann á að áratugalöng venja væri fyrir því að lögreglumenn kæmu fyrir dóm og lýstu rannsóknum þó þeir hafi ekki upplifað verknaðinn sem verið er að dæma í. Það væri því þversögn í að leyfa slíkt á sama tíma og matsmenn gætu ekki komið fyrir réttinn.

Jón Ásgeir Jóhannesson er meðal ákærðu í málinu.
Jón Ásgeir Jóhannesson er meðal ákærðu í málinu. mbl.is/Þórður Arnar

Lögreglumenn og matsmenn ekki það sama

Verjendur mótmæltu því þó og bentu til þess að ekki væri um að ræða sérfræðiaðstoð fyrir rannsakendur, heldur hafi þetta verið gert fyrir slitastjórnina.  Því væri ekki lagalegur grundvöllur fyrir að leiða vitnin fyrir dóm.

Þá sagði Óttar að ekki væri hægt að bera saman rannsóknarlögreglumenn og matsmenn, þar sem verið væri að spyrja lögreglumennina út í rannsóknina og að þeir hefðu upplifað hana af fyrstu hendi og því væri slíkt talið falla undir lögin. Slíkt ætti ekki við um matsmennina.

Gæti óskað eftir nýjum matsmönnum

Sagði Óttar að lokum að ef dómari myndi samþykkja að matsmenn kæmu fyrir dóminn myndi hann óska eftir að nýir matsmenn væru fengnir til að gera matsskýrslu.

Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð málsins hefjist 12. apríl og kom fram í dag að áætlað sé að hún taki 7 daga í það heila, 5 daga í skýrslutökur og 2 daga í málflutning.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert