Viðræður hafnar í Borgarbyggð

Ágreiningur var uppi um skólamál á Hvanneyri.
Ágreiningur var uppi um skólamál á Hvanneyri. mbl.is/Helgi Bjarnason

Sjálfstæðisflokkurinn er í viðræðum við Samfylkinguna um nýjan meirihluta í Borgarbyggð en meirihlutasamstarfi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins var slitið í gær.

„Við erum að reyna að átta okkur á stöðunni. Við höfum átt gott samtal og vonumst til að það skýrist innan langs tíma hvernig þetta fer. Við erum ekki komin í gang með málefnasamning heldur erum við að fara yfir málin,“ segir Björn Bjarki Þorsteinsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og forseti sveitarstjórnar.

Meirihlutasamstarfið slitnaði vegna ágreinings um hagræðingu í skólamálum á Hvanneyri. „Við kynntum sjónarmið okkar fyrir samstarfsaðilum okkar í meirihlutanum í fyrrihluta vikunnar en svo fór sem fór,“ segir Bjarki.

Meirihlutinn hafði lagt fram tillögu um að grunn- og leikskóli Hvanneyrar yrði í sama húsnæði í Andabæ. Ágreiningur var uppi við íbúasamtök bæjarins um fjölda bekkjadeilda í skólanum.

Vildu bakka út úr skaflinum

Bjarki bjóst ekki við því að samstarfið myndi slitna. „Ég hélt að við gætum náð lendingu með því að bakka út úr skaflinum og sjá hvort það væri önnur leið fær í samstarfi við þá sem að þessu skólakerfi koma í kringum Hvanneyri, því samstarfið hefur að mörgu leyti gengið ágætlega. En við náðum ekki saman um þetta.“

Trúnaðarbrestur

Að sögn Bjarka varð hann þess áskynja í gærmorgun að fulltrúar Framsóknarflokksins væru byrjaðir að ræða við önnur framboð um meirihlutasamstarf án þess að vera búnir að úttala málin við Sjálfstæðisflokkinn. „Það gerði málið flóknara. Þarna var trúnaðarbrestur og við töluðum um þetta í seinni partinn í gær,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert