80 nemendur útskrifaðir á Bifröst

Háskólinn á Bifröst.
Háskólinn á Bifröst. Helgi Bjarnason

Í dag útskrifaði Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst 80 nemendur úr öllum deildum skólans. Í útskriftarræðu sinni sagði Vilhjálmur að nú á tímum hækkandi kaupmáttar í samfélaginu þyrfti fólk að þekkja muninn á metnaði og græðgi og að margar freistingar í atvinnulífinu ættu eftir að verða á vegi fólks í framtíðinni. 

„Ótal tilboð og tækifæri munu koma fram þar sem menn vilja kaupa og selja á háu verði verðmæti sem ekki er búið að skapa og fjárfesta á grunni óraunhæfra væntinga. Á endanum munu þeir svo lifa sem hafa getuna til að taka á sig áföll þegar þau koma,“ sagði Vilhjálmur í ræðu sinni.

Í ræðu sinni rakti rektor einnig það ferli er liggur að baki því að gæði Háskólans á Bifröst voru nýverið staðfest af Gæðaráði íslenskra háskóla. Bæri nemendum að líta á þá staðfestingu sem sína útskriftargjöf. „Gleðjumst í dag. Framtíðin kemur á morgun. Við erum undirbúin fyrir hana,“ sagði Vilhjálmur í lok ræðu sinnar til útskriftarnema.

Útskriftarverðlaun hlutu Elva Pétursdóttir, á viðskiptasviði, Björn Líndal Traustason á lögfræðisviði og Gústaf Gústafsson á félagsvísindasviði. Í meistaranámi hlutu útskriftarverðlaun Magnús Bollason, á viðskiptasviði, Rakel Marín Jónsdóttir, á lögfræðisviði og Þórunn Björnsdóttir á félagsvísindasviði.

Malin Marika Eldh hlaut viðurkenningu frá VR fyrir bestan árangur í diplómanámi í verslunarstjórnun. Að auki fengu eftirfarandi þrír nemendur felld niður skólagjöld á haustönn í tilefni af framúrskarandi námsárangri, Ása María H. Guðmundsdóttir á félagsvísindasviði, Svanberg Halldórsson á viðskiptasviði og Ellen Ósk Eiríksdóttir á  lögfræðisviði.

Nemendur sem héldu útskriftarræðu voru, Jóna Dóra Ásgeirsdóttir, fyrir hönd viðskiptasviðs, Sjöfn Hilmarsdóttir, fyrir hönd lögfræðisviðs og Georg Kristinsson, fyrir hönd meistaranema.

Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst.
Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst. Mynd/Bifröst
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert