Leita að húsnæði fyrir allt að 100 einstaklinga

Í auglýsingu Barnaverndarstofu segir, að það sé nauðsynlegt að umsækjendur …
Í auglýsingu Barnaverndarstofu segir, að það sé nauðsynlegt að umsækjendur hafi áhuga og möguleika á að sinna margvíslegum þörfum barnanna í nýju umhverfi og veita þeim öruggt skjól á heimili sínu, AFP

Útlendingastofnun auglýsir eftir að taka á leigu húsnæði fyrir vistarverur hælisleitenda, en leitað er eftir húsnæði fyrir allt að 100 einstaklinga. Þá auglýsir Barnaverndarstofa eftir áhugasömu fólki sem er reiðubúið að taka inn á sitt heimili ungling sem komi hingað til lands án fylgdar fullorðinna.

Í Morgunblaðinu og í Fréttablaðinu í dag er að finna auglýsingu frá Ríkiskaupum sem óska eftir að taka á leigu húsnæði fyrir Útlendingastofnun fyrir vistarverur hælisleitenda. 

Húsnæði í eða við höfuðborgarsvæðið

„Leitað er að húsnæði fyrir allt að 100 einstaklinga. Um er að ræða 40-60 herbergi fyrir 1—2 einstaklinga og 8-10 íbúðir fyrir 2-4 einstaklinga. Miða skal við að um það bil 40-50 einstaklingar verði á sama stað. Til staðar skal vera lokað rými fyrir öryggisvörð og eftirlitskerfi.

Gerð er krafa um að húsnæði sé á höfuðborgarsvæðinu eða nálægum sveitarfélögum þó eigi fjær en um 50 km frá Reykjavík (miðbær). Húsnæði skal vera í göngufæri við matvöruverslanir/verslanir og grunnskóla og nálægt almenningssamgöngum þannig að íbúar geti auðveldlega nálgast ýmsa afþreyingu s.s. bókasöfn, sundstaði o.fl.,“ segir í auglýsingunni. 

Umsækjendur alfarið heimavinnandi eða með sveigjanlegan vinnutíma

Þá er að finna auglýsingu frá Barnaverndarstofu í Fréttablaðinu í dag, þar sem spurt hvort fólk hafi áhuga á að taka inn á heimili barn sem gæti verið á aldrinum 13-17 ára og komi án fylgdar fullorðinna til Íslands.

„Óskað er eftir áhugasömu fólki sem er tilbúið að vista eða fóstra barn á heimili sínu til lengri eða skemmri tíma. Æskilegt er að þeir sem taka að sér börn í slíkum aðstæðum hafi reynslu eða þekkingu á málefnum flóttabarna, mismunandi menningu þeirra, trú og hefðum og eða tali tungumál þeirra. Nauðsynlegt er að umsækjendur hafi áhuga og möguleika á að sinna margvíslegum þörfum barnanna í nýju umhverfi og veita þeim öruggt skjól á heimili sínu,“ segir í auglýsingu Barnaverndarstofu.

„Mikilvægt er að umsækjendur geti alfarið verið heimavinnandi sé talin þörf á eða hafi sveigjanlegan vinnutíma ef þeir vinna utan heimilis. Þeir umsækjendur sem taka að sér barn munu fá viðeigandi undirbúning og fræðslu,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert