Þúsundir tonna sælgætis á ári

Algengt er að fólk kaupi sér bland í poka á laugardögum, bæði börn og fullorðnir. Sumir gæta hófs en stundum er býsna vel í lagt, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Smávegis mæra lítur sakleysislega út, en þegar að er gáð kemur í ljós að í 300 grömmum – sem virkar ekki mikið – eru 75 sykurmolar. Í sælgæti í 500 gr poka, sem þykir lítið þegar nammibarinn er sóttur heim á laugardögum að sögn þeirra sem til þekkja, eru 125 sykurmolar!

Eitur þá en ekki nú?

Fjallað er um mikla sykurneyslu Íslendinga í fjölmiðlum reglulega; bent á að með einhverjum ráðum verði að draga úr, heilsu þjóðarinnar sé stefnt í hættu og bent á sykursýki 2, ýmsa hjarta- og æðasjúkdóma og þar fram eftir götunum. Þar til umræðan fer næst af stað breytist hins vegar sorglega lítið til batnaðar og tonn eftir tonn hverfur áfram ofan í landann.

Fyrir nokkrum misserum var frá því greint að heildarframboð sælgætis hérlendis árlega væri sex þúsund tonn. Enginn getur fullyrt hve mikið er borðað af því magni, en gera verður ráð fyrir að stærstum hluta sé sporðrennt.

Laufey Hrólfsdóttir, sem er í doktorsnámi í næringarfræði í Háskóla Íslands, bendir á öfgana sem voru áberandi í nýliðinni viku og þeirri næstu þar á undan.

„Í síðustu viku var mikið rætt um sykur í mat, hve hann væri mikið eitur og að hann leyndist í matvælum út um allt. Mikið var talað um samfélagslega ábyrgð og þulin upp nöfn á tugum heita yfir leyndan sykur í mat,“ segir hún í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Hvað gerist svo?

„Viku síðar kemur öskudagurinn, krakkar koma heim með sælgæti í kílóavís og þá er ekkert falið; allt uppi á borðum og allir vita af sælgætinu – sem er stútfullt af sykri – enda alls staðar myndir á Facebook og Snapchat! Þá er allt í lagi og bara gaman. Hvaða skilaboð erum við að senda börnunum okkar?“ spyr Laufey.

Hún er búsett á Akureyri, sem löngum hefur verið höfuðstaður öskudagsins á Íslandi. Laufey tekur sem dæmi að ef barn á aldrinum 6 til 9 ára fær 2 kg af sælgæti á öskudaginn dugi sá skammtur í heilt ár, miðað við ráðlagðan skammt!

Viltu eyðileggja daginn?

Davíð Kristinsson heilsufrömuður býr einnig á Akureyri. Honum blöskraði ástandið í liðinni viku, tjáði sig á Facebook og hlaut bæði hrós og miklar skammir fyrir.

Hann fullyrðir að algengt sé að börn hafi um 4 kíló sælgætis upp úr krafsinu og þau duglegustu sem hann veit um komu heim með 8 og hálft kíló.

„Ég hef engan áhuga á að leggja niður eða eyðileggja öskudaginn, eins og sumir sökuðu mig um á Facebook, þvert á móti; ég vildi bara benda á vitleysuna sem viðgengst. Er ekki allt í lagi að draga aðeins úr því sem hvert barn fær á hverjum stað eða gefa eitthvað annað en sælgæti alls staðar. Ég gaf krökkunum til dæmis harðfisk, það var mjög vinsælt og töluvert meira magn en ég var með í fyrra fór út á mun skemmri tíma vegna þess að þegar það fréttist að hjá mér væri harðfiskur streymdu liðin hingað.“

Nánar er fjallað um málið Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert