Bóka- og bíóhátíð hefst á morgun

Bóka- og bíóhátíð barnanna í Hafnarfirði hefst formlega á morgun. Þessi nýja menningarhátíð, sem stendur yfir í eina viku, er nú haldin í fyrsta skipti og mun vikan endurspegla áherslu á bækur og kvikmyndir og skapandi og skemmtileg verkefni sem tengjast hvoru tveggja.

Á opnunarhátíð vikunnar verða Lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar 2016 kynntir, einstaklingar sem koma úr röðum flottra hafnfirskra fyrirmynda að því er segir í tilkynningu.

Opnunarhátíðin fer fram í Bæjarbíói þriðjudaginn 16. febrúar kl. 10:30 en þar verða í kringum 150 börn á aldrinum fjögurra til sjö ára viðstödd.

Lestrarsendiherrarnir munu á opnunarhátíðinni m.a. lesa síður úr uppáhalds barnabókinni sinni og spjalla við börnin auk þess sem gestum býðst að horfa á kvikmynd ætlaða yngsta aldurshópnum.

Lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar munu út þetta ár vera andlit lesturs og læsis í Hafnarfirði og hafnfirskum börnum fyrirmynd og hvatning til framfara og árangurs á lestrarsviðinu.

Frítt á alla viðburði

Tilgangur nýrrar Bóka- og bíóhátíðar barnanna er að efla áhuga barna enn frekar á lestri og læsi í víðum skilningi og mun hátíðin styðja við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í gangi hefur verið síðustu misseri.

Hátíðin er haldin í nánu samstarfi Hafnarfjarðarbæjar við Bókasafn Hafnarfjarðar, grunnskóla, leikskóla, Hafnarborg, Bæjarbíó, Verslunarmiðstöðina Fjörð og fleiri aðila. Yfirlýst markmið er að hvetja börn á öllum aldri og foreldra þeirra til virkrar þátttöku í uppbyggjandi og áhugaverðum læsis- og menningarverkefnum og – viðburðum á meðan á hátíðinni stendur.

Þetta er í fyrsta skipti sem blásið er til slíkrar hátíðar í Hafnarfirði og standa vonir til þess að úr verði árleg hátíð þar sem börn, bækur og bíó eru í sviðsljósinu.

Frítt verður á alla viðburði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert