Læðan Vök var vinsælust

Kettirnir sem voru í iðnaðarhúsinu eru flestir skjannahvítir eða kolsvartir.
Kettirnir sem voru í iðnaðarhúsinu eru flestir skjannahvítir eða kolsvartir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Um tuttugu kisur sem urðu munaðarlausar í haust eignuðust líklega framtíðarheimili í dag. Þrjátíu kisur voru til sýnis á Korputorgi í dag og sumar voru vinsælli en aðrar.

Kisurnar eru úr hópi fimmtíu katta sem Matvælastofnun tók úr vörslu umráðamanns þeirra í haust en þeim var haldið við bágar aðstæður í iðnaðarhúsnæði í Reykjavík. Dýrahjálp Íslands stóð fyrir ættleiðingardeginum í dag en aðrar kisur úr sama hópi lentu annað hvort í höndum Kisukots eða Kattholts.

Ein læða sem ekki var úr fyrrnefndum hóp fékk þó að fljóta með í dag en henni var bjargað frá drukknun á svipuðum tíma og kattahópurinn kom til Dýrahjálpar. Hún heitir Vök og fannst nærri dauða en lífi í lækjarsprænu. Aðspurð segir Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands, að Vök hafi verið sérlega vinsæl í dag enda ólík hinum köttunum á litinn.

Hún er marglit, gul, svört og hvít, en kettirnir sem voru í iðnaðarhúsnæðinu eru flestir annað hvort kolbiksvartir eða skjannahvítir að sögn Valgerðar.

Fleiri á heimasíðu Dýrahjálpar

Valgerður segir daginn hafa gengið mjög vel og telur að allir kettirnir, fyrir utan fimm til tíu þeirra, séu komnir með heimili. „Við þurfum að taka stöðuna eftir helgi og heyra betur í þeim sem sýndu áhuga,“ segir hún en tilvonandi kisuforeldrar fengu ekki að taka dýrin með sér heim í dag.

Hún segir að allir ketti sem voru nógu hraustir hafi fengið að koma á ættleiðingadaginn. Aðrir þurfa að jafna sig betur og verður reynt að finna þeim heimili í gegnum heimasíðu samtakanna. 

Frétt mbl.is: Missti augað en er byrjuð að mala

Frétt mbl.is: Lögðu hald á fimmtíu ketti

Læðan Vök var vinsæl.
Læðan Vök var vinsæl. Mynd af heimasíðu Dýrahjálpar Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert