„Námstækifærin hér eru einstök“

Elín með drenginn sem hún tók á móti fyrr í …
Elín með drenginn sem hún tók á móti fyrr í vikunni. Ljósmynd/Elín Edda Sigurðardóttir

Rétt fyrir jól hófu fjórir íslenskir læknanema ævintýraför til Afríku. Nú eru þeir í Malaví þar sem þeir ertu í verknámi á þremur stöðum. Einn læknanemanna, Elín Edda Sigurðardóttir, segir upplifunina ótrúlega og margt ólíkt því sem hún og hinir nemarnir eiga að venjast á Íslandi.

Elín er í Malaví ásamt Kristjáni Haukssyni, Söndru Gunnarsdóttur og Tinnu Hallgrímsdóttur. Þau verða í Malaví í verknámi á þremur mismunandi heilbrigðisstofnunum sem er hluti af tólf vikna valtímabili á seinustu önninni þeirra í læknisfræði.

Þau hófu verknámið á Kamuzu Central Hospital, sem er ríkisrekinn spítali í Lilongwe, höfuðborg Malaví, en þaðan var farið á héraðsspítala í Mangochi. Seinni hluta dvalarinnar verða þau á spítala á Monkey Bay svæðinu en hann var fjármagnaður af Íslendingum í gegnum verkefni á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Fyrir utan héraðsspítalann í Mangochi. Talið frá vinstri: Kristján, Sandra, …
Fyrir utan héraðsspítalann í Mangochi. Talið frá vinstri: Kristján, Sandra, Elín Edda, Tinna Ljósmynd/Elín Edda Sigurðardóttir

Seldi þeim hugmyndina á tæpum klukkutíma

„Ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar þaulreyndir eldri nemar kynntu fyrir okkur „valtímabilið“ á fyrstu dögunum mínum í náminu. Ég ætlaði ekki að trúa því að það væri tólf vikna gluggi þar sem maður gæti upplifað nýja staði og á sama tíma verið í læknisfræði og ákvað samstundis að gera eitthvað framandi,“ segir Elín í samtali við mbl.is.

Hún segist hafa orðið spennt fyrir Malaví þegar að hún heyrði af nemum sem fóru þangað fyrir nokkrum árum síðan. Þau höfðu komið á tenglsum þar í gegnum Sigurð Guðmundsson, smitsjúkdómalækni og fyrrverandi landlækni. Hann starfaði í Malaví í ár á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands ásamt eiginkonu sinni, við uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Monkey Bay svæðinu.

„Það var svo á köldum eftirmiðdegi að ég, ásamt nokkrum samnemendum mínum, fór á fund Sigurðar í þeim tilgangi að spyrjast aðeins fyrir um Malaví. Innan við klukkustund síðar vorum við staðráðin í að fara. Hann seldi okkur þessa hugmynd. Það var ekki af því að þetta væri alltaf svo æðislega skemmtilegt, frábært og létt, því þvert á móti, þá gerði hann okkur fyllilega grein fyrir því að þetta myndi verða átakanleg, en jafnframt mannbreytandi lífsreynsla,“ segir Elín og bætir við að hópurinn hafi ákveðið að fara til Malaví til þess að kynnast vandamálum og aðlagast menningu í einu fátækasta ríki heims, sem er svo ólíkt þeirra eigin.

„Við þurfum að stíga langt út fyrir eigin þægindaramma en erum sannfærð um að þessi lífsreynsla muni breyta viðhorfi okkar til frambúðar.“

Mesta púðrið fer í að þylja upp dauðsföll

Elín segir svolítið erfitt að fá góða mynd af aðstæðunum í heilbrigðiskerfinu í Malaví án þess að sjá þær með berum augum.

„Ég myndi lýsa Landspítalanum sem svítu samanborið við þessar aðstæður, en það er auðvitað ekki rétt að bera þessa tvo staði saman á þennan hátt,“ útskýrir Elín.  „Dagurinn hér byrjar á morgunfundi, rétt eins og á Íslandi, en það sem er ólíkt er að mesta púðrið fer venjulega í að þylja upp dauðsföllin síðasta sólarhringinn. Þetta er sérstaklega erfitt á barnadeildinni, en þar látast yfirleitt nokkur börn þar á dag, flest úr malaríu.“

Elín segir mjög mikla mannmergð á spítalanum sem þau starfa á og að einstök lykt gnæfi yfir allt. Ekki er hægt að nálgast sápu eða handspritt og hitamælar eru bara stundum tiltækir og það sama gildir um blóðþrýstingsmæla.

Hér má sjá bráðabakkann á sjúkrahúsinu í Mangochi.
Hér má sjá bráðabakkann á sjúkrahúsinu í Mangochi. Ljósmynd/Elín Edda Sigurðardóttir

Ekkert tölvukerfi eða staðdeyfing

„Sumar blóðrannsóknir eru aðgengilegar, aðrar ekki og það er ekki til nein staðdeyfing. Eins og búast mátti við þá er ekkert tölvukerfi, enda mjög fáar tölvur á spítalanum. Skjólstæðingarnir mæta á spítalann með sjúkraskránna sína, en þeir fá litla pappabók við fæðingu sem þeim er ætlað að geyma alla ævi. Það gerist þó stundum að þeir glata þessari bók og þá er engin sjúkraskrá til um viðkomandi einstakling. Margir koma úr fjarlægum þorpum og hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru gamlir, hvað þá hvaða dag þeir eiga afmæli,“ segir Elín.

„Á meðan einstaklingar dvelja á spítalanum er haldið utan um leguna með því að handskrifa á A4 blöð sem eru heftuð saman og geymd í rúmi viðkomandi. Þessi blöð glatast stundum og þá er bara byrjað upp á nýtt,“ segir Elín og bætir við að aðstandendur sjúklingana séu yfirleitt mikið á svæðinu enda eru það þeir sem sjá alfarið um aðhlynningu og tauþvott. Í flestum aðstæðum þurfa þeir líka að elda ofan í sitt fólk.

Kippa sér ekki upp við hænu á stofugangi

„Blóðleysi er mikið vandamál hér og skjólstæðingarnir þurfa sjálfir að finna blóðgjafa ef þeir eiga að geta fengið blóð. Ég minnist þess sérstaklega að hafa séð flott skilti sem benti á „X-ray department“, en komst fljótlega að því að röntgentækið hafði verið bilað í um sex mánuði,“ segir Elín. „Þeir sjúklingar sem eru nauðsynlega taldir þurfa á röntgenmynd að halda eru sendir á annan spítala og birtast þá stundum ekki aftur fyrr en sólarhring síðar með stórt pappaumslag sem inniheldur gamaldags röntgenmynd á filmu. Það eru dæmi um það að sjúklingar hafi látist einhvers staðar á þessu ferðalagi til að komast í röntgenmynd.“

Að sögn Elínar liggja berklasjúklingar yfirleitt innan um aðra sjúklinga og því er smithætta töluverð, einkum ef um lungnaberkla er að ræða. „Svo er að sjálfsögðu nóg af skordýrum og menn eru ekkert að kippa sér upp við það þó að það sé hæna á stofugangi,“ segir Elín.

Hún segir jafnframt að á spítalanum séu samskipti við skjólstæðinga í flestum tilfellum læknismiðuð, það er að segja þá taka skjólstæðingar yfirleitt ekki þátt í ákvarðanatöku. „Ég hef oft orðið vitni að því þegar læknir tilkynnir sjúklingi að hann sé að fara í aðgerð og yfirleitt fylgja fáar upplýsingar með þeirri tilkynningu. Fólki eru færðar slæmar fregnir í öllu öngþveitinu og fær jafnvel tilkynningar um að það sé dauðvona fyrir framan hóp af ókunnugu fólki,“ segir Elín.

Börn að leik í Senga Bay.
Börn að leik í Senga Bay. Ljósmynd/Elín Edda Sigurðardóttir

Forréttindi að fylgjast með læknunum vinna

Bráðamóttaka barna á spítalanum samanstendur af einu stóru rými þar sem rúmum er raðað þétt hvort upp við annað með þremur til fjórum börnum í hverju rúmi. Að sögn Elínar liggja mæðurnar yfirleitt á gólfinu undir eða til hliðar við rúmin.

„Það ríkir mikill læknaskortur í landinu, en hér er annað nám í boði sem er þriggja ára langt og gefur starfsheitið klínískur starfsmaður. Klínískir starfsmenn ganga í störf lækna hér, en hafa ekki sama grunn. Hér eru framkvæmdar stórar skurðaðgerðir af klínískum starfsmönnum, stundum að auki með læknanema þar sem klínískur svæfingastarfsmaður framkvæmir og viðheldur svæfingu,“ segir Elín en bætir við að að læknarnir á spítalanum kunni svo sannarlega sitt fag.

„Það eru þvílík forréttindi að fylgjast með því hvernig þeir vinna við þessar aðstæður því þeir eru oft mjög góðir í að redda sér. Þeir geta lítið rannsakað og notast meira við klínískar greiningar, það er að segja að greina sjúkdóma einungis með sögu og skoðun,“ útskýrir Elín.

„HIV er stórt vandamál hér, en talið er að um 11% landsmanna eru smitaðir. Hér er því rekin gríðarlega flott HIV móttaka fyrir börn, þar sem þeim er boðið ókeypis eftirlit og lyf. Leghálskrabbamein er einnig stórt vandamál og stendur konum nú til boða að koma í svokallaða skimun fyrir frumubreytingum í leghálsi sem þó er annars slags en tíðkast á Íslandi. Námstækifærin hér eru einstök,“ segir Elín og bætir við að sjúkratilfellin séu miklu ýktari en þau sem maður sér á Íslandi.

Tilfelli sem þau héldu að væru aðeins til í skólabókum

„Greiningartöfin er gríðarleg, enda á fólk gjarnan ekki fyrir ferðalaginu á spítalann og geymir það svo árum skiptir að leita til læknis. Þetta leiðir til þess að við sjáum daglega tilfelli sem við héldum einungis að væru til í skólabókum og lærum mikið á þeim.“

Að sögn Elínar eru vandamálin úti í Malaví einnig allt annars eðlis en heima. Vannæring, malaría, HIV og berklar eru mjög algeng vandamál og fylgikvillar þeirra. „Tækifæri til að taka þátt í inngripum eru einnig meiri hér en heima og má þar nefna mænustungur á börnum og aftöppun á vökva í brjóst- eða kviðarholi,“ segir Elín. 

Elín og Tinnu að undirbúa sig fyrir aðgerð. Það voru …
Elín og Tinnu að undirbúa sig fyrir aðgerð. Það voru ekki til neinar hlífar fyrir hárið svo þær þurftu að notast við skóhlífar. Ljósmynd/Elín Edda Sigurðardóttir

Fékk legvatn yfir sig alla

Á fæðingardeildinni á spítalanum í Mangochi fæðast um 30-40 börn á dag og hafa Íslendingarnir allir fengið tækifæri til að taka á móti börnum upp á eigin spýtur. Elín tók á móti sínu fyrsta barni fyrr í vikunni og segir það hafa verið ótrúlega lífsreynslu. 

„Hér er fæðingardeildin eitt stórt rými. Konurnar liggja með ruslapoka undir sér og karlmenn eru aldrei viðstaddir fæðinguna. Á einni viku á fæðingardeildinni sá ég fleiri fæðingar og varð vitni af fleiri fylgikvillum en ég sá á öllu mínu verknámi á Íslandi,“ segir Elín.

„ Venjulega byrja stelpurnar að eignast börn um 14 ára og það er borin mikil virðing fyrir þeim ef þær gera það hvort sem þær eiga mann eða ekki. En ef kona getur ekki eignast barn skilur maðurinn venjulega hana.“

Sumar á fæðingadeildinni eru með HIV eða jafnvel alnæmi og þá eru veirulyf það fyrsta sem börnin fá að borða eftir að þau fæðast að sögn Elínar. „Fyrsta barnið sem ég tók á móti var drengur sem fæddist með naflastrenginn vafinn um hálsinn, en var mjög sprækur. Hann var mikið að drífa sig í heiminn og ég fékk legvatn yfir mig alla og neyddist til að fara heim í sturtu eftir fæðinguna.“

Biðja bláköld um pening

Elín segir margt við Malaví ólíkt því sem hún á að venjast frá Íslandi og segist eiga margar skemmtilegar og áhugaverðar sögur.  „Við erum löngu orðin vön því að allir séu að biðja okkur um pening,“ nefnir hún sem dæmi.  „Ef maður gengur framhjá börnum þá rétta þau fram hendurnar og segja bláköld “give me money”. Fullorðið fólk notar ýmsar aðferðir til að biðja um pening, en yfirleitt eru þau ekkert að skafa af hlutunum frekar en börnin og segja líka bara “give me money”.“

Eina helgina leigði hópurinn sér hús á fallegum stað sem kallast Senga Bay og liggur upp við Malavívatn. „Húsið reyndist mun stærra en við höfðum búist við og með því fylgdi kokkur sem var bæði góður í sínu starfi og skemmtilegur. Ég var ekki búin að þekkja hann í marga klukkutíma þegar við stóðum í eldhúsinu og hann sagði að hann vantaði snjallsíma og bað mig að kaupa hann handa sér. Honum fannst ekkert tiltökumál að biðja um það, enda átti hann bara venjulegan gsm síma. Því miður sá ég mér ekki fært að verða að bón hans, en hópurinn tók sig saman og gaf veglegt þjórfé sem hann gæti notað til að safna fyrir þessari lífsnauðsynlegu eign. Þrátt fyrir þetta gerðist hann svo kræfur að ítreka bón sína í sms skilaboðum viku síðar,“ segir Elín.

Erfiðast að sjá fólk veslast upp og deyja

Áður en hópurinn fór til Malaví fóru þau til Zanzibar og Suður-Afríku. Elín segir það aðlaðandi staði og segir það magnað að hafa fengið að vera í mikilli nálægð við villt dýr.

„Við eignuðumst ýmsa skrautlega vini á því ferðalagi sem er okkur ómetanlegt. En í Malaví er það reynslan og tækifærin sem við fáum á spítalanum sem hafa verið skemmtilegust. Hér er allt mjög frumstætt og það má eiginlega segja að það hafi bæði verið mjög erfitt og skemmtilegt. Það sem hefur án efa verið erfiðast er að sjá fólk og sérstaklega öll þessi börn veslast upp og deyja úr kvillum sem eru læknanlegir við betri aðstæður. Maður er fljótur að átta sig á því hvað það er gott að búa á Íslandi og verður þakklátur fyrir allt sem maður hefur þar. Þessi lífsreynsla er mjög þroskandi og við munum vafalaust koma heim með nýjan og þykkan skráp sem mun nýtast okkur jafnt í starfi sem og lífi.“

Í Lilongwe og Mangochi bjó hópurinn á spítalasvæðinu.  „Í Lilongwe fengum við sérstakar íbúðir sem ætlaðar voru fyrir kennara. Þær voru fínar, við vorum með sjónvarp og eldhús, en þurftum að borga mikið fyrir dvölina þar. Það var auðvelt að nálgast ferska matvöru í Lilongwe og mjög ódýrt fyrir okkur að versla inn eða borða á veitingastöðum. Maður lifði svolítið eins og kóngur þarna,“ segir Elín.

Í Mangochi er staðan önnur. „Hér búum við í litlum herbergjum með tveimur rúmum í hverju þeirra. Það er engin aðstaða til að elda og illa lyktandi frystikista til að geyma matvörur. Við höfum reynt að geyma vatnið okkar þar, en næturverðirnir annað hvort drekka það og henda flöskunum, eða fylla af ylvolgu brunnvatni. Þeir gera sér enga grein fyrir því að við þolum ekki vatnið hérna.“ Þá segir Elín ekki neitt úrval af mat í bænum og sérstaklega erfitt að nálgast prótínrík matvæli.

„Við sjáum því fram á að borða mikið af grilluðum maís og ávexti meðan á dvölinni stendur hér,“ bætir hún við.

Elín ásamt börnum í þorpi sem hún heimsótti.
Elín ásamt börnum í þorpi sem hún heimsótti. Ljósmynd/Elín Edda Sigurðardóttir

Voru eitt sinn vatnslaus í sólarhring

Að sögn Elínar hefur rafmagnið líka farið reglulega síðan þau komu til Malaví og oft í töluverðan tíma. „Við vorum vel undirbúin fyrir það og tókum öll með okkur höfuðljós og utanáliggjandi hleðsludokkur. Við lentum í eitt skipti í því að vera vatnslaus í um sólarhring sem var mjög óþægilegt, en það gerist víst ekki oft. Við megum þakka fyrir að vera með rafmagn yfir höfuð, því að stór hluti af Malövum hefur ekki aðgang að því.“

Í Malaví eru um 200.000 þorp og hvert þeirra hefur höfðingja sem stjórnar þorpinu. „Í þeim er ekkert rafmagn og það er meira að segja svo að margir hafa ekki einu sinni séð ljósaperu. Fólkið býr þröngt í kofum með stráþökum og stundar sjálfsþurftarbúskap og vöruskipti. Við heimsóttum eitt þorp og þurfti innlendur vinur okkar að fá sérstakt leyfi frá höfðingjanum til þess. Það var ótrúleg upplifun,“ segir Elín.  „Börnin voru gífurlega spennt að sjá „hvíta manninn“, eltu okkur um allt þorpið og vildu vera með á sem flestum myndum.“

Fljót að venjast aðstæðunum

Að sögn Elínar hefur það verið óneitanlega mikið menningaráfall að koma til Malaví, þrátt fyrir að hafa reynt að undirbúa sig áður en hún fór.
„Nánast því alltaf þegar við komum á nýja staði fáum við nýtt áfall. Það er samt ótrúlegt hvað maður hefur mikla aðlögunarhæfni og aðstæður sem manni þótti alveg hræðilegar fyrst eru ekkert mál núna. Mér þótti til að mynda lyktin á spítalanum alveg óbærileg fyrst, en núna tek ég varla eftir henni. Manni fer að þykja hálf vænt um fólkið þegar maður er farinn að skilja menninguna betur. Malavar eru mikil hörkutól,“ segir Elín.

Hópurinn kemur heim í lok þessa mánaðar og taka þá við mismunandi verkefni.

„Sjálf ætla ég að vinna á sjúkrahúsinu á Akranesi í fjórar vikur áður en ég dembi mér í lestur fyrir lokaprófin í læknisfræði sem eru í maí. Svo er heldur betur tilefni til að fagna í júní, en þá útskrifumst við loksins eftir sex ára nám,“ segir Elín.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert