Opna fæðingastofu fyrir hraustar landsbyggðarkonur

Ljósmæðurnar Arney og Hrafnhildur undirbúa nú opnun fyrstu ljósmæðrareknu fæðingastofuna …
Ljósmæðurnar Arney og Hrafnhildur undirbúa nú opnun fyrstu ljósmæðrareknu fæðingastofuna í Reykjavík. Markmið þeirra er að bjóða upp á nýjan valkost fyrir verðandi foreldra. Ljósmynd/Birna Bryndís Þorkelsdóttir.

Ljósmæðurnar Hrafnhildur Halldórsdóttir og Arney Þórarinsdóttir eru nú í óða önn við að undirbúa opnun fyrstu ljósmæðrareknu fæðingastofunnar á Íslandi.

„Við stofnuðum fyrirtækið Björkina eftir að við útskrifuðumst árið 2009. Þar starfa ljósmæður sem taka að sér heimafæðingar og heimaþjónustu í sængurlegu auk þess sem boðið er upp á námskeið, ráðgjöf, nálastungur og fleira fyrir barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra,“ segir Arney.

Sams konar þjónusta og við heimafæðingar

Á síðustu fimm árum hefur Björkin sinnt um 200 fjölskyldum í heimafæðingum. Nú vilja Hrafnhildur og Arney bæta starfsemina og opna fæðingastofu fyrir hraustar konur í eðlilegri meðgöngu.

„Okkur fannst vanta aðstöðu þar sem hægt er að bjóða konum upp á sömu þjónustu og þær fá við heimafæðingar. Það hefur auk þess verið draumur okkar lengi að opna fæðingastofu,“ segir Arney.

„Hugmyndin sprettur af því að til okkar hafa leitað konur sem búa úti á landi og koma til Reykjavíkur að fæða börnin sín og hafa áhuga á að þiggja okkar þjónustu og fæða utan spítala. Sumar hafa getað fætt í verkalýðsíbúðum eða heima hjá ættingjum og vinum, en aðrar hafa ekki haft neina aðstöðu,“ segir Arney.  

Fæðingastofan er því fyrst og fremst hugsuð fyrir konur af landsbyggðinni sem koma til Reykjavíkur til að fæða börn sín þar sem ekki er fæðingaþjónusta í heimabyggð þeirra. „Stofan verður að sjálfsögðu einnig opin konum sem búsettar eru á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Arney. 

Raunhæfur kostur fyrir verðandi foreldra

Kostnaði verðandi foreldra verður reynt að halda í lágmarki og munu Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í að standa straum að kostnaðinum. „Foreldrar þurfa að greiða aðstöðugjald sem verður reynt að halda í lágmarki. Við viljum bjóða verðandi foreldrum upp á hentugan valkost,“ segir Arney.

Stofan verður opnuð í aðstöðu Bjarkarinnar í Síðumúla 10 í Reykjavík. Búið er að fjármagna þær framkvæmdir sem ráðist verður í vegna opnunar stofunnar en Hrafnhildur og Arney óska nú eftir stuðningi almennings til að safna fyrir öllu því sem þarf til að útbúa fullbúna og heimilislega fæðingastofu. „Við þurfum allt frá rúmum og sængum til sótthreinsitækja til að hreinsa áhöldin og fósturhjartsláttarnema,“ segir Arney.  

Söfnunin fer fram á Karolina Fund og er stefnan sett á eina og hálfa milljón króna. Á söfnunarsíðunni má finna nánari upplýsingar um fæðingastofuna og starfsemi hennar.

Fæðingastofan er hugsuð fyrir hraustar konur í eðlilegri meðgöngu sem …
Fæðingastofan er hugsuð fyrir hraustar konur í eðlilegri meðgöngu sem vilja fæða í heimilislegu umhverfi með ljósmóður sem þær þekkja. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert