Fer fram á allt að 12 ára fangelsi

mbl.is/Hjörtur

Farið er fram á að hollenskt par, sem flutti tæplega 210 þúsund MDMA-töflur, rúm 10 kíló af MDMA-mulningi og 34,55 grömm af amfetamíni til landsins með Norrænu í september, verði dæmt í allt að 12 ára fangelsi. Þetta kom fram í máli Kolbrúnar Benediktsdóttur saksóknara í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þar sem aðalmeðferð í málinu fer fram. Sagði hún að miðað við dómafordæmi væri erfitt að rökstyðja annað en að refsing væri nálægt hámarkinu.

Fram kom í máli Kolbrúnar að þar væri miðað við ákæruna en samkvæmt henni vissi konan af fíkniefnunum. Karlmaðurinn játaði brotið við handtöku en konan hefur neitað því að hafa vitað um efnin. Kolbrún sagði rétt að horfa til játningar mannsins og þess að hann hefði reynt að aðstoða lögreglu við að hafa uppi á þeim sem skipulögðu innflutninginn þó það hefði ekki skilað árangri. Saksóknari vísaði því hins vegar á bug að kona mannsins hefði ekki vitað af fíkniefnunum með vísun meðal annars til þess að hún hefði sagt dóttur sinni að hún ætlaði til Spánar en hefði þess í stað farið til Íslands.

Fíkniefnin voru falin í varadekki, tveimur gaskútum og 14 niðursuðudósum í húsbíl þeirra. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá handtöku en konan er hins vegar í farbanni. Verjandi mannsins, Gísli Auðbergsson, sagði fyrir dómi að dóttur mannsins hefði verið hótað ef hann færi ekki í ferðina til Íslands. Sagðist hann telja hæfilegan dóm vera fimm ára fangelsi.

Uppfært 15:48: Upphaflega kom fram í fréttinni að farið væri fram á níu ára fangelsi byggt á fréttum Ríkisútvarpsins. Fréttin er uppfærð með upplýsingum frá embætti héraðssaksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert