Konur fá 77% af launum karla

Að meðaltali telja konur að um 20% vanti upp á …
Að meðaltali telja konur að um 20% vanti upp á svo að laun þeirra séu sanngjörn. mbl.is/Golli

Konur innan almenns samningssviðs Flóafélaganna eru að meðaltali með 77% af launum karla í heildarlaun á mánuði. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup sem fyrirtækið gerði fyrir sviðið.

Þar kemur fram að karlar hafa að meðaltali um 102 þúsund krónum hærri heildarlaun en konur fyrir fullt starf. Heildarlaun karla í fullu starfi eru að meðaltali 443.000 kr. á mánuði og 341.000 kr. hjá konum.

Þegar spurt var hver væru sanngjörn laun fyrir vinnu viðkomandi, þá töldu karlar að þau þyrftu að vera 63 þúsund krónum hærri og konur 69 þúsund krónum hærri að meðaltali á mánuði en nú er.

Þá telja konur að meðaltali að um 20% vanti upp á svo að laun þeirra séu sanngjörn á meðan mat karla að meðaltali er að það vanti um 14% upp á laun sín.

Ræstingafólk með lægstu launin

Af einstaka starfsstéttum eru starfsmenn sem vinna við ræstingar með lægstu dagvinnulaunin eða 262.000 kr. á mánuði að meðaltali og er um helmingur ræstingafólks með minna en 250.000 krónur á mánuði að meðaltali í dagvinnulaun.

Heildarlaun ræstingafólks eru einnig lægst eða að meðaltali 325.000 kr. fyrir fullt starf. Um 36% ræstingafólks er með undir 300.000 kr. á mánuði í heildarlaun.

Í tilkynningu frá Eflingu segir að frekari vangaveltur hljóti að vakna yfir því að helmingur ræstingafólks segist ekki fá neinar viðbótargreiðslur, svo sem vegna yfirvinnu eða vaktaálags, en segist á sama tíma hafa unnið utan dagvinnutíma.

Launaviðtöl eru árangursrík samkvæmt niðurstöðum Gallup.
Launaviðtöl eru árangursrík samkvæmt niðurstöðum Gallup. mbl.is/Eggert

Launaviðtöl skila hækkunum

Um þriðjungur svarenda fór í launaviðtal á síðasta ári og af þeim sögðust tveir af hverjum þremur að það hefði skilað sér launahækkun umfram kjarasamningsbundnar hækkanir. 

Þá töldu yfir 65% félagsmanna að atvinnurekandi þeirra hefði mikið svigrúm til að greiða hærri laun en þeir voru með. Hlutfallið var hæst meðal starfsfólks í ræstingu eða 76% og 73% í fiskvinnslu.

Karlar vinna tæpum fimm tímum meira

Niðurstöður könnunarinnar sýna að heildarvinnutími félagsmanna í fullu starfi hefur minnkað lítillega milli ára og er nú að meðaltali rétt tæplega 46 klukkustundir. Karlar í fullu starfi vinna að meðaltali 47,5 klukkustundir og konur 42,7 klukkustundir.

Bílstjórar/tækjamenn vinna lengstan vinnudag eða tæplega 51 klukkustundir á viku. Þá vinna byggingastarfsmenn tæplega 50 klukkustundir á viku. Um 15% segjast vera í fleiri en einu starfi og af þeim sem eru í fullu starfi vinna 11% annað starf að auki.

Starfsfólk fiskvinnslu var oftast frá vegna veikinda.
Starfsfólk fiskvinnslu var oftast frá vegna veikinda. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Meiri bjartsýni, aukin veikindi

Mun meiri bjartsýni þykir ríkja en áður meðal félagsmanna.

Þannig svöruðu 57% þeirra sem starfa við veitingastörf og eins ræstingar að þeir ættu auðvelt með að skipta um vinnu án þess að lækka í tekjum. Töluvert fleiri félagsmenn eru nú sáttari með laun sín en árið áður eða tæplega þriðjungur, en einungis 22% félagsmanna voru sáttir með laun sín þá.

Að lokum segir í tilkynningu Eflingar að stöðug aukning veikindafrávika meðal félagsmanna milli ára leiði hugann að því hvort áhrif síaukins vinnuálags séu að gera vart við sig. Um helmingur félagsmanna var frá vegna veikinda á síðustu 3 mánuðum en 43% árið áður og 38% árið 2011. Starfsfólk í fiskvinnslu var oftast frá vegna veikinda þar sem 64% þeirra sögðust hafa verið frá vegna veikinda á síðustu 3 mánuðum.

Frekari niðurstöður könnunarinnar má nálgast á vef Eflingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert