Sex þúsund blaðsíðna yfirferð

Ragnar Aðalsteinsson situr við hlið Lúðvíks Bergvinssonar.
Ragnar Aðalsteinsson situr við hlið Lúðvíks Bergvinssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Endurupptökunefnd í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum er að bíða eftir endurriti af skýrslutöku sem fór fram í málinu fyrir rúmum tveimur vikum.

Björn L. Bergsson, formaður nefndarinnar, segir að einhverjir mánuðir muni líða þangað til komist verður að niðurstöðu í málinu.

„Þetta er gríðarlega umfangsmikið mál. Þetta eru í kringum sex þúsund blaðsíður sem er verið að fara í gegnum,“ segir Björn.  „Það er þó nokkuð mikil vinna eftir ennþá.“

Voru ánægðir með skýrslutöku

Skýrslutakan fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok janúar.

Lúðvík Bergvinsson, lögmaður Tryggva Rúnars Leifssonar og afkomenda Sævars Ciesielski, lýsti yfir ánægju sinni með þær upplýsingar sem komu þar fram. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður  Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar,  var á sama máli og sagði skýrslutökuna hafa gengið vonum framar.

Endurupptökubeiðnirnar byggjast meðal annars á þeim rökum að með nýjum gögnum hafi verið sýnt fram á að játningar sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, sem var einn helsti grundvöllur sakfellingar, hafi verið fengnar fram með ætlaðri refsiverðri háttsemi þeirra sem komu að rannsókn málanna.

Björn L. Bergsson, hæstaréttarlögmaður, er formaður endurupptökunefndar.
Björn L. Bergsson, hæstaréttarlögmaður, er formaður endurupptökunefndar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert