Tekinn upp á myndband og tapaði

Frá leik Aftureldingar og Fylkis árið 2014.
Frá leik Aftureldingar og Fylkis árið 2014. mbl.is/Styrmir Kári

Persónuvernd hefur vísað frá kvörtun vegna birtingar myndbandsupptöku af áhorfanda á knattspyrnuleik Aftureldingar og Selfoss í efstu deild kvenna árið 2014.

Þar lét áhorfandinn dómaratríó leiksins hafa það óþvegið. Myndband var tekið upp af athæfi hans og birt á netinu. 

Persónuvernd barst kvörtun frá áhorfandanum 6. október 2014 þar sem hann taldi upptökuna hafa verið ólöglega og einnig að ólöglegt hafi verið að senda hana til fjölmiðla. Upptakan birtist fyrst á Facebook, fór þaðan á Youtube og svo á Fotbolti.net.

Orðræðan og háttsemin varð að rata í fjölmiðla

Lögmaður blaðamannsins sem birti myndbandið sagði að hann hafi verið í fullum rétti til að flytja fréttir af því sem hafi verið fréttnæmt í tengslum við leikinn. „Ómögulegt hafi verið að miðla mynd- og hljóðefni af leiknum til fjölmiðla án þess að orðræða og háttsemi kvartanda rataði þar inn,“ að því er kemur fram í dóminum.

Lögmaðurinn lýsti einnig þeirri afstöðu að friðhelgi einkalífs og persónuvernd áhorfandans vegna hegðunar hans á opinberum vettvangi í viðurvist fjölda fólks geti ekki verið ríkari en hagur almennings af því að sagðar séu fréttir af knattspyrnuleikjum og því sem þar gerist.

Aldrei í sjónlínu upptökuvélar

Í svarbréfi frá lögmanni áhorfandans til Persónuverndar sagði meðal annars: „Þrátt fyrir að kappleikir séu teknir upp eigi áhorfendur ekki að þurfa að gera ráð fyrir að upptökuvélum sé beint sérstaklega að þeim. Kvartandi hafi aldrei verið í sjónlínu upptökuvélar.“

Í niðurstöðu dómsins segir: „Efnisleg úrlausn um umrædda kvörtun lýtur að því hvort birting umrædds myndbands, sem tekið var á opinberum viðburði þar sem alla jafna má búast við upptökum, hafi farið út fyrir ramma áðurnefnds stjórnarskrárákvæðis. Í ljósi framangreinds og atvika málsins telur Persónuvernd því úrlausn máls þessa falla undir dómstóla og er málinu vísað frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert