4 og hálft ár fyrir nauðgun í Hrísey

Hrísey.
Hrísey. www.mats.is

Eiríkur Fannar Traustason var í dag dæmdur í fangelsi í fjögur ár og sex mánuði fyrir að hafa nauðgað 17 ára gamalli stúlka  þar sem hún lá sofandi í tjaldi á tjaldsvæði eyjarinnar. Eiríkur játaði fyrir dómi sakargiftir og samþykkti bótaskyldu gagnvart stúlkunni

Í dómnum kemur fram að Eiríkur hafi þann 25. júlí 2015 farið inn í tjald stúlkunnar, sem er frönsk og hafði verið á hjólaferðalagi um landið. Var stúlkan þá sofandi en Eiríkur greip um munn hennar, hélt henni niðri og sló hana hnefahöggi í andlitið. Því næst snéri hann stúlkunni á magann og ýtti höfði hennar niður í svefnpokann og hótaði henni ítrekað að drepa hana ef hún þegði ekki. Þá sló hann hana ítrekað í höfuð og líkama og reyni að hafa við hana samfarir.

Því næst fróaði hann sér yfir stúlkuna og hafði á hana sáðlát. Aftur reyndi Eiríkur svo að hafa við hana samfarir og þrýsti henni á ný niður og setti svefnpokann yfir höfuð hennar. Áður en hann fór úr tjaldinu hótaði hann henni á ný. Af þessu hlaut stúlkan stórt mar á andliti og eymsli í kjálkalið.

Eiríkur rak á þessum tíma veitingastað í eyjunni. Var hann við störf þar umrætt kvöld. Stúlkan hafði komið í eyjuna sama dag og fór í skoðunarferð yfir daginn. Fór hún á veitingastaðinn um kvöldið og hitti þar Eirík og spölluðu þau saman í nokkurn tíma. Fór hún svo á tjaldsvæðið og kom sér fyrir í tjaldinu sem hún hafði meðferðis.

Eiríkur fór eftir vaktina heim til sín ásamt syni sínum sem hafði verið með honum á veitingastaðnum yfir kvöldið. Þaðan fór hann svo á tjaldsvæðið, en á milli klukkan 3 og 3:30 um nóttina leitaði stúlkan ásjár á heimili í eyjunni þar sem málið var svo tilkynnt lögreglu.

DNA-próf sem gert var á sæði mannsins var jákvætt við sýni úr Eiríki og þá segir í dómi héraðsdóms að frásögn brotaþola hafi í öllum aðalatriðum verið einlæg, greinargóð og trúverðug. Voru rannsóknargögn lögreglu og önnur gögn í málinu í öllum aðalatriðum brotaþola til stuðnings.

Í dóminum kemur fram að Eiríkur hafi á þessum tíma verið undir áhrifum áfengis og annarra fíkniefna, svo sem amfetamíns og kókaíns. Sagði hann sjálfur við skýrslutöku að hann myndi ekki eftir stórum hluta næturinnar. Það síðasta sem hann myndi eftir væri að sitja að drykkju heima hjá sér um nóttina og neyta fíkniefna.

Var Eiríkur með áverka á fingri og gat hann ekki skýrt hvernig hann fékk þá. Brotaþoli sagði aftur á móti að hún hefði bitið hann til blóðs á fingri sem hún taldi vera vísifingur vinstri handar.

Í dómnum kemur fram að stúlkan hafi vaknað þegar ráðist var að henni með barsmíðum en að hún hefði veitt því eftirtekt að gerandinn var karlmaður, íklæddur svörtum regnstakk með hettu.  Hefði hettan verið reimuð að andliti gerandans og hún því ekki séð vel andlit hans, en veitt því eftirtekt að hann var með svart stutt skegg. Sagði hún við skýrslutöku að hún væri nokkuð viss um að það væri maðurinn sem hún hefði hitt á veitingastaðnum: „I‘m really sure that this was the man in the restaurant.“

Við leit lögreglu á heimili Eiríks kom í ljós að þvottavélin var lokuð og að þar voru nýþvegin karlmannsföt, þ.e. svartur regnstakkur með hettu, svört hettupeysa, dökkar buxur, svartir sokkar og nærbuxur.

Var Eiríkur auk þess dæmdur til að greiða stúlkunni 1,7 milljón í miskabætur og 2,5 milljónir í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert