Biskup bauð þrjá mánuði í bætur

Agnes M. Sigurðardóttir biskup braut jafnréttislög.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup braut jafnréttislög. mbl.is/Golli

Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, bauð sr. Úrsúlu Árnadóttur þrenn mánaðarlaun í sáttabætur eftir að sú fyrrnefnda braut á Úrsúlu við skipun sr. Þráins Haraldssonar í embætti prests á Akranesi í janúar á síðasta ári.

Úrsúla segist í samtali við mbl.is ósátt við að biskup hafi ekki boðið henni annað embætti í staðinn og telur líklegt að hún fari með málið fyrir dómstóla.

Eins og mbl.is hefur áður greint frá komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að biskup hefði brotið jafnréttislög þegar Þráinn var skipaður. Eftir að niðurstaðan lá fyrir ræddi biskup við Úrsúlu, bauð henni þrenn mánaðarlaun í sáttabætur og sagði jafnframt að fordæmi væru fyrir niðurstöðu sem þessari. Úrsúla segist í samtali við mbl.is hafa óskað eftir upplýsingum um fordæmið.

Úrsúla segir gott að vera í Eyjum en óskar þess að vera nær fjölskyldunni sem búsett er á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Biskup setti Úrsúlu til þjónustu prests í afleysingum í Vestmannaeyjaprestakalli frá 15. september á síðasta ári til 30. júní á þessu ári og segir Úrsúla aðskilnaðinn við fjölskylduna erfiðan.

Spurð um æskilega niðurstöðu í málinu segist Úrsúla hafa viljað fá embætti á Akranesi eða á höfuðborgarsvæðinu þannig að hún hefði tækifæri til að vinna. Bendir hún á að nýlega hafi biskup búið til nýtt starf héraðsprests fyrir sr. Skírni Garðarsson eftir samskiptaörðugleika hans og Ragnheiðar Jónsdóttur, sóknarprests í Mosfellsprestakalli.

Úrsúla er meðal ellefu umsækjanda um stöðu sóknarprests á Reynivöllum. Embættið veitist frá 1. mars næstkomandi.

Fréttir mbl.is um málið:

Útilokar ekki að leita réttar síns

Bjó til nýtt starf og auglýsti ekki

Ellefu vilja á Reynivelli

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert