Hélt milljónum frá skattinum

Maðurinn er ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot.
Maðurinn er ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot. mbl.is/Golli

Mál gegn stjórnanda einkahlutafélags vegna meiriháttar brota á skattalögum verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Maðurinn, sem er á sextugsaldri, stóð ekki skil á virðisaukaskatti og opinberum gjöldum. Samtals námu vangoldnar greiðslur félagsins rúmum fimmtán milljónum króna.

Maðurinn var stjórnarmaður, prófkúruhafi og daglegur stjórnandi einkahlutafélagsins. Honum er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem félagið innheimti stærstan hluta rekstrarársins 2014 og skýrslum honum tengdum. Heildarupphæðin nemur 5.608.653 krónum.

Þá er hann ákærður fyrir að hafa haldið eftir staðgreiðslu opinberra gjalda í júní árið 2014 og staðgreiðslu af launum starfsmanna félagsins í nokkur skipti árin 2013, 2014 og 2015. Alls hélt hann eftir 9.662.360 krónum.

Samtals er maðurinn því sakaður um að hafa skotið 15.271.013 krónum undan skatti. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í júní árið 2015 samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert