Sjúkrabíll fauk útaf og sat fastur

mbl.is/Landsbjörg

Á fimmta tug björgunarsveitarmanna tóku þátt í björgunaraðgerðum í gærkvöldi og nótt vegna óveðurs sem gekk yfir landið. 

Sjúkrabíll á leið yfir Oddskarð fauk útaf veginum um klukkan 21:00 í gær og sat þar fastur. Björgunarsveitin Brimrún frá Eskifirði fór á staðinn og aðstoðaði við að ná sjúkrabílnum aftur upp á veg svo hann gæti haldið áfram ferð sinni til Egilsstaða.

Síðar um kvöldið var tilkynnt um fastan bíl við Bláa Lónið, þar var ferðafólk í vanda. Einnig var bátur að losna frá bryggju á Reyðarfirði, hurð á sundlauginni á Bolungarvík fauk upp sem og gluggi á leikskólanum á Suðureyri. Þar fauk landgangur við flotbryggju í höfninni en ekkert verður gert í því fyrr en veður lægir. 

Erlendir ferðalangar sátu fastir í ófærð utan við Vopnafjörð og rúða brotnaði í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Ófært um Holtavörðuheiði, Öxnadalsheiði og fjallvegi fyrir vestan

Það er suðvestan ofsaveður á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi en lægir síðan talsvert eftir hádegi. Áfram þó 15-20 m/s um landið vestanvert og við taka nokkuð dimm él suðvestan- og vestanlands, samkvæmt frétt á vef Vegagerðarinnar.

Það eru hálkublettir og éljagangur á Reykjanesbraut og mjög víða á Reykjanesi. Hálka er á Sandskeiði og Hellisheiði og hálka eða hálkublettir á vegum á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir en snjóþekja Bröttubrekku, Svínadal og á Snæfellsnesi.  Ófært er á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði.
 
Slæmt ferðaveður er á Vestfjörðum og eru flestir fjallvegir enn ófærir en þó er orðið fært yfir Gemlufallsheiði en þar er snjóþekja og mjög hvasst og blint. Vegurinn yfir Hálfdán er lokaður vegna óveðurs og umferðaróhapps

Í Norðurlandi er hálka á flestum vegum og víðast hvar mjög hvasst. Ófært er á Öxnadalsheiði og á Mývatnsöræfum en þar er nú stórhríð. Flughálka er í Þistilfirði og við Bakkaflóa.

Þæfingsfærð er á Háreksstaðaleið en annars hálka er á flestum leiðum á Austurlandi en þó er flughálka í Oddskarði og í Hjaltastaðaþinghá. Enn er ófært á Vopnafjarðarheiði en þar er óveður. Hálka er á nokkrum köflum með suðausturströndinni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert