Skilaboðin að hverfið sé ekki fyrir börn

Foreldrar í Háaleitishverfi eru ekki sáttir með borgaryfirvöld.
Foreldrar í Háaleitishverfi eru ekki sáttir með borgaryfirvöld. mbl.is/Ómar

Íbúasamtök Háaleitis og stjórn foreldrafélags Háaleitisskóla gera alvarlega athugasemd við stöðu barna í hverfinu og segja Reykjavík senda þau skilaboð með ákvörðunum sínum og gjörðum að hverfið sé ekki ætlað börnum. „Það gildir einu hvert samhengið er, hvort um sé að ræða umferðaröryggi í hverfinu, aðstæður til útiveru, ástand skólalóða og nú síðast gervigrasvöllurinn á Fram svæðinu í Safamýri,“ segir í tilkynningu frá hverfisráði Háaleitis.

Hverfisráðið segir að á síðustu árum hafi íbúasamtökin og foreldraráðið ítrekað komið athugasemdum og áhyggjum á framfæri á fundum á vegum borgarinnar og með öðrum hætti. Segir ráðið að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda vegna þungrar umferðar í hverfinu né athugasemda vegna skólalóðar Háaleitisskóla sem hverfisráðið segir í niðurníðslu.

Mælirinn hafi svo fyllst vegna nýjustu frétta af „úrgangsdekkjakurlinu á Framvellinum.“ Gagnrýnir hverfisráðið að ekki sé brugðist við á æfingasvæði Fram. „Vegna þessarar óvissustöðu íþróttafélagsins Fram þá eiga börnin okkar að búa við það að veltast upp úr eiturúrgangi þegar þau spila fótbolta um óákveðna framtíð eða þar til hlutirnir skýrast um hvort Fram flytur. Á sama tíma er áætlað að bregðast við á öðrum íþróttavöllum borgarinnar.“

Krefst hverfisráðið til þess að borgin endurskoði ákvörðun sína og endurnýi kurlið á vellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert