Snjóflóðahætta og glórulaust veður

Vindaspáin í morgun
Vindaspáin í morgun Af vef Veðurstofu Íslands

Ekkert ferðaveður er á Vestfjörðum og biður lögreglan fólk um að vera ekki á ferðinni í veðurofsanum. Allar heiðar eru ófærar og óvissustig er í Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu. Rafmagn hefur víða farið af og björgunarsveitarmenn voru að koma í hús eftir að hafa bjargað tveimur af Hálfdáni.

Björgunarsveitin á Bíldudal var kölluð út um þrjú leytið í nótt vegna flutningabíls sem þveraði veginn á Hálfdáni. Nú skömmu fyrir sex voru björgunarsveitarmenn komnir af heiðinni með mennina tvo sem voru í flutningabílnum en ekkert amaði að þeim. Glórulaust veður er á heiðinni sem og öðrum fjallvegum á Vestfjörðum. Á Hálfdáni hefur slegið í yfir 40 metra á sekúndu í hviðum.

Líkt og fram hefur komið á mbl.is þá eru víða rafmagnstruflanir og að sögn lögreglunnar á Ísafirði hefur rafmagn verið að detta reglulega út þar í nótt. 

Spáin framað hádegi er slæm fyrir Norður- og Norðvesturland en þar er spáð suðvestan 20-30 m/s en hægari syðst fram á kvöld. Él um landið sunnan- og vestanvert, en léttir til annars staðar.

Lægir smám saman um og eftir hádegi, suðvestlæg átt 8-15 seint í dag, en allhvass vindur syðst í kvöld og fram á nótt. Kólnandi veður, frost 0 til 7 stig síðdegis. Suðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s á morgun og áfram él sunnan- og vestanlands, en úrkomulítið fyrir austan. Vaxandi norðlæg átt NV-til síðdegis og kólnar annað kvöld.

Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði ófærar

Það er hálka á Sandskeiði og Hellisheiði og hálka mjög víða á vegum á Suðurlandi. Þungfært er á Mosfellsheiði.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir og snjóþekja á Snæfellsnesi.  Ófært er á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði. Verið er að kanna færð á Bröttubrekku og koma nánari upplýsingar fljótlega.
 
Í Norðurlandi er hálka á flestum vegum og mjög hvasst. Ófært er á Öxnadalsheiði og á Mývatnsöræfum.

Hálka er á flestum leiðum á Austurlandi en þæfingsfærð í Oddskarði. Enn er ófært á Fjarðarheiði en unnið að hreinsun. Hált er á köflum með suðausturströndinni.

Bætt við klukkan 6:51

„Í gær fóru heit skil yfir landið og í gærkvöldi var suðaustanrok og -ofsaveður á A-verðu landinu með talsvert mikilli rigningu, einkum SA-lands. Meðalvindurinn fór hæst í 50 m/s á Gagnheiði og hviðan á Vatnsskarði Eystra fór í 68 m/s.

Fljótlega eftir miðnætti fylgdu köld skil í kjölfarið og snerist þá vindurinn í suðvestlæga átt og dró úr styrknum fyrir austan en bætti í hann N- og V-lands og fór vindurinn m.a. yfir 32 m/s á Holtavörðuheiði. Þessi mikli meðalvindur heldur áfram N- og NV-til fram eftir morgni, jafnvel yfir 30 m/s og má búast við snörpum hviðum á þessum slóðum, einkum staðbundið í Skagafirði og Eyjafirði. Um hádegi dregur síðan hratt úr veðurofsanum.

Það hefur kólnað jafnt og þétt í nótt og er úrkoman nú að mestu leyti él eða snjókoma S- og V-til og bætir heldur í ákefðina í kvöld og nótt. Á morgun dregur enn frekar úr vindi með áframhaldandi éljagangi en þurrt fyrir austan,“ segir í pistli vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert