„Þær eru óðum að tínast af“

Frá Reykjanesi.
Frá Reykjanesi. mbl.is/Rax

Óveðrið sem herjaði á Norður-  og Norðvesturland í nótt og í morgun er óðum að ganga yfir. Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að ekki sé gert ráð fyrir frekari viðvörunum vegna veðurs yfir daginn.

„Nei þær eru bara óðum að tínast af. Það er stormur á nokkrum stöðum ennþá og verður það fram yfir hádegið en síðan er þetta bara orðið svona allhvass og hvass vindur, sérstaklega í éljunum,“ segir Óli.

Frétt mbl.is: Snjóflóðahætta og glórulaust veður

Óli segir að samkvæmt núgildandi spám sé gert ráð fyrir að veður á sunnanverðulandinu haldist nokkurn veginn óbreytt fram eftir degi. Bætast muni heldur í úrkomuna á suðvesturhorninu í kvöld með auknum éljagangi.  Byrjað sé að lægja fyrir norðan og á Vestfjörðum og það muni halda áfram. Enn eigi eftir að draga töluvert úr vindi á Vestfjörðum þó mikið hafi dregið úr síðan í morgun en áfram verður nokkru éljagangur.

„Það verður býsna einsleitt veður það sem eftir lifir dags. Það verður éljagangur á vestanverðu landinu og teygir sig eitthvað austur með landinu sunnanverðu en á Norðaustur- og Austurlandi verður líklega besta veðrið seinni partinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert