Vilja ekki áfengi í matvöruverslanir

mbl.is/Heiddi

Meirihluti landsmanna, eða 52%, er andvígur því að léttvín verði selt í matvöruverslunum samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Maskínu. Rúmur þriðjungur, eða 35%, er því hins vegar hlynntur. Fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að andstaðan hafi aukist frá sambærilegri könnun í árslok 2014 þegar 45% hafi verið andvíg sölu léttvíns í matvöruverslunum en 39% því hlynnt.

Heldur fleiri eru hlynntir sölu bjórs í matvöruverslunum eða rúmlega 37% á móti rétt ríflega helmingi sem er því andvígur. Þar hefur andstaðan einnig aukist frá því í árslok 2014 þegar 40% voru hlynnt sölu á bjór í matvöruverslunum en 45% því andvíg. Afgerandi meirhluti er hins vegar andvígur sölu á sterku víni í matvöruverslunum eða 71% og hefur lítil breyting orðið í þem efnum segir í tilkynningunni. Samanlagt eru 62% andvíg allri sölu á áfengi í matvöruverslunum.

Flestir kjósendur allra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, eru andvígir sölu á sterku víni, bjór og léttvini í matvöruverslunum. Eina undantekningin er að 46% kjósenda Bjartrar framtíðar eru hlynnt sölu léttvíns í matvöruverslunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert