Segir vinnustöðvun neyðaraðgerð

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna álversins Straumsvík, segir að vinnustöðvun félagsmanna Verkalýðsfélagsins Hlífar sé neyðaraðgerð til að reyna að fá viðsemjendur að borðinu.

„Þegar það var ljóst að við vorum búin að fá þau svör frá viðsemjendum okkar að þeir hefðu engar heimildir til að semja vegna þess að það væri búið að taka umboðið af þeim, þurfti að koma hreyfingu á málið. Það var tekið fyrir í samninganefnd hvert væri best að fara og það var fyrsti valkosturinn að fara þessa leið,“ segir Gylfi.

Að öllu óbreyttu mun ótímabundið útflutningsbann á áli hefjast í byrjun dags 24. febrúar. 

Frétt mbl.is: Vinnustöðvun hjá Rio Tinto

Kosið var um vinnustöðvunina hjá félagsmönnum Verkalýðsfélagsins Hlífar. Tólf starfsmenn voru á skrá. Einn var í fríi og því greiddu ellefu atkvæði. Allir samþykktu þeir vinnustöðvunina.

Útflutningsbann hefur áhrif

„Svona aðgerðir eru neyðaraðgerðir til þess að reyna að fá viðsemjendur að setjast að borðinu til lausnar. Við erum búnir að prufa eitt og annað en það hefur ekki gengið til þess að fá viðsemjendur okkar að borðinu fyrir alvöru. Þeir hafa verið með hótanir um að ef það yrði gripið til verkfalls yrði fyrirtækinu lokað. Við höfum tekið þær hótanir alvarlega og erum ekkert í því ferli,“ bætir Gylfi við.  „Við gerum okkur grein fyrir því að útflutningsbann hefur áhrif og það er von okkar að viðsemjendur átti sig á því að það þarf að semja.“

Fyrsta skrefið 

Verkalýðsfélög starfsmanna í Straumsvík eru fimm talsins. Spurður hvort von sé á frekari vinnustöðvunum  segir Gylfi að það verði að koma í ljós. „Þetta er fyrsta skrefið og við sjáum hvort það leiðir til þess að aðilar semji. Ef það þarf að grípa til frekari aðgerða þá verður það skoðað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert