Ísland á leið „niður í aðra deild“

Húsnæði Landspítalans er að mygla og vegir að molna, segir …
Húsnæði Landspítalans er að mygla og vegir að molna, segir Guðmundur. mbl.is/Júlíus

„Ég bjóst við að ég myndi sjá að gefið yrði í á uppgangstímum. Það eru mér vonbrigði að sjá að svo er ekki,“ sagði Guðmundur Steingrímsson þingmaður Bjartrar Framtíðar á þingi í dag, en þá fóru fram sérstakar umræður um fjárfestingar í innviðum.

Hann bætti við að þetta væri honum mikið áhyggjuefni.

„Þó það væri ekki nema bara fyrir fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna. Það er augljóst að það þarf að fjárfesta í innviðum. Rannsóknir hafa sýnt að eðlilegt sé að fjögur til fimm prósent landsframleiðslu fari í fjárfestingu í innviðum, en þetta hlutfall hefur á undanförnum árum verið í kringum tvö prósent.“

Uppsöfnuð þörf í þjóðfélaginu

Guðmundur sagði að vegna þessa hefði safnast upp ákveðin þörf.

„Samtök iðnaðarins hafa bent á að uppsöfnuð þörf á margvíslegum opinberum fjárfestingum sé að minnsta kosti hundrað milljarðar,“ sagði hann og benti á að í vegakerfinu væri uppsöfnuð þörf sem næmi 60-70 milljörðum.

„Maður þarf ekki að vera sérstakur vísindamaður til að sjá þetta. Seglin voru dregin saman eftir hrun og nú erum við að verða vitni að því að innviðir eru að versna. Húsnæði Landspítalans er að mygla og vegir eru að molna. Í fjárlögum er gert ráð fyrir frekari afskriftum en fjárfestingum. Opinberar eignir eru að rýrna og það þýðir að samfélagið mun versna.“

Guðmundur Steingrímsson þingmaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson þingmaður Bjartrar framtíðar.

„Förum niður í aðra deild“

„Eitt er alveg augljóst og kristaltært. Það er ekki hægt að fjármagna hallalausan rekstur á ríkissjóði með því að fresta nauðsynlegum framkvæmdum og viðhaldi. Það er ekki sjálfbært. Við föllum um flokk og förum niður í aðra deild.

Væri kannski skynsamlegt að nota hundrað milljarða til að byggja upp innviði til framtíðar í stað þess að fara í skuldaleiðréttingar með óljósum árangri? Það verður að gera áætlanir svo að við sjáum loks til lands í þessum efnum. Þar er ríkisstjórnin hreinlega að skila auðu.“

Erum að komast upp úr öldudal

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði gagnrýni Guðmunds að einhverju leyti óréttmæta.

„Í tíð síðustu ríkisstjórnar fór fjárfesting í innviðum úr 2,4% niður fyrir eitt prósent. Það var skorið stórkostlega niður á því tímabili og við erum að komast upp úr þeim öldudal. Menn verða að kannast við það að við erum að koma úr mjög lágri opinberri fjárfestingu.“

Hann bætti við að forgangsröðun í niðurskurði hefði birst harkalega í miklum samdrætti í opinberri fjárfestingu. Benti hann svo á að honum fyndist 4-5% vera fullhá tala.

„Frá 1998 hefur fjárfesting í innviðum verið um tvö prósent af landsframleiðslu að jafnaði. Hún hefur verið lægri á undanförnum árum og hefur rétt náð einu prósenti. Þó höfum við verið að mjaka okkur upp í 1,3% á þessu ári,“ sagði Bjarni. „Það er hárrétt að til lengri tíma sé þetta of lítið.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Eitt prósent þýði 23 milljarða

Þá sagði hann að tilfærsla í málaflokknum um eitt prósent til viðbótar næmi um 23 milljörðum.

„En það er mjög lítið svigrúm til að auka hlutfallið mikið því einkageirinn hefur tekið mjög við sér og er að nálgast langtímameðaltal í fjárfestingu. Það dregur úr svigrúmi hins opinbera. En hér er nánast ekkert atvinnuleysi og slakinn er horfinn. Seðlabankinn hefur verið að hækka vexti sem er góður vísir um ástand efnahagsins.“

Bjarni sagðist sammála Guðmundi um að stjórnvöld stæðu frammi fyrir mjög mörgum brýnum verkefnum.

Mörg stór verkefni að klárast

„En góðu fréttirnar eru þær að mörg stór verkefni eru að klárast og 5, 10 eða 15 milljarða svigrúm að myndast fyrir komandi ár,“ sagði hann og bætti við að honum fyndist of lítið fjármagn hafa verið sett í viðhald vega á undanförnum árum.

„Við þurfum að haga seglum eftir vindi og svigrúmið væri vissulega hægt að skapa ef rekstur ríkisins yrði minnkaður, en það er engin samstaða um slíkt á þinginu. Það er vandlifað þegar menn vilja hækka laun um 7% á ári og sjá atvinnulífið taka við sér og skapa ný störf, og á sama tíma stórauka fjárfestingarstigið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert