Framsendu ekki erindið á réttan stað

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður.
Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður.

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður segir það ekki rétt sem forsvarsmaður Útlendingastofnunar hafi fullyrt, að hann hafi ekki sótt um endurupptöku máls skjólstæðinga sinna, þeirra Christian Boa­di og Mart­in Omulu.

Frétt mbl.is: Óskuðu ekki eftir endurupptöku

Í samtali við mbl.is segist Ragnar hafa sent tölvupóst til innanríkisráðuneytisins og afrit til Útlendingastofnunar þann 9. desember síðastliðinn, þar sem þess var óskað að skjólstæðingum hans yrði veitt dvalarleyfi á Íslandi.

Erindið fyrst núna til kærunefndarinnar

„Það var stílað á innanríkisráðuneytið og afrit sent á Útlendingastofnun svo þessum aðilum var kunnugt um vilja skjólstæðinga minna að þessu leyti. Hins vegar hefði greinilega, samkvæmt því sem stofnanirnar segja, átt að beina erindinu að kærunefnd útlendingamála. En samkvæmt stjórnsýslulögum þá ber því stjórnvaldi, sem fær erindi sem heyrir undir annað stjórnvald, að senda það til rétts stjórnvalds.“

Þar vísar Ragnar til 7. greinar stjórnsýslulaga, þar sem segir að berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, beri því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er. Svo virðist sem þessu ákvæði hafi ekki verið hlítt af hálfu hins opinbera og málið fer því nú fyrst á réttan stað, til kærunefndar útlendingamála.

„Núna fyrst mun ég senda ítarlegt erindi til kærunefndarinnar. Af hálfu Útlendingastofnunar var það forsenda þess að brottvísunin yrði afturkölluð í gærkvöldi að sótt yrði um endurskoðun og dvalarleyfi fyrir þeirra hönd,“ segir Ragnar.

Frétt mbl.is: Ekki fluttir úr landi í nótt

Ragnar fær ekki séð af hverju ákvörðun um brottvísun sé …
Ragnar fær ekki séð af hverju ákvörðun um brottvísun sé tekin núna. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Segir stjórnvöld brjóta á meðalhófsreglunni

Ragnar telur að ýmsir vankantar hafi verið á stjórnsýslunni í málinu.

„Mennirnir eru með gilt dvalarleyfi og ég get ekki séð að þar sé getið neins fyrirvara. Hins vegar er ekki útilokað að það hefði mátt skrifa upplýsingar um fyrirvara inn í dvalarleyfið en ég kem ekki auga á slíkt. Þess vegna dreg ég í efa að það megi afturkalla leyfið og í raun var það ekki einu sinni afturkallað.“

Hann segist engan grundvöll sjá fyrir brottvísun mannanna. Þá geri hann sér ekki grein fyrir hvers vegna ákvörðun sé nú án sýnilegs fyrirvara tekin um að vísa þeim á brott.

„Það er enn fremur brot á meðalhófsreglu að gefa mönnum aðeins sólarhring til að búa sig undir brottflutning frá landinu. Það eru engin rök sem mæla með því og það hefur engan tilgang að haga málum þannig. Þeir eru báðir í fastri vinnu með gilt dvalarleyfi og þar af leiðandi engin ástæða til að gera það með skyndingu.“

Meðalhófsregla sú sem Ragnar vísar til felst í 12. grein stjórnsýslulaga þar sem segir að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þá skuli þess gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.

Fram hefur komið að skjólstæðingar Ragnars hafa dvalið hér á landi í fjögur ár, eru með gilt dvalarleyfi, atvinnuleyfi og fasta vinnu. Hann segist engin fordæmi þekkja þar sem fólki í svipaðri stöðu hefur verið vísað af landi brott.

Ragnar segir afstöðu dómstóla hafa legið fyrir í málinu.
Ragnar segir afstöðu dómstóla hafa legið fyrir í málinu. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur vísaði málinu frá

Ef mál hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni í tvö ár eða lengur þá er í lögum um útlendinga sérstakt heimildarákvæði sem segir til um að veita megi mönnum rétt til að búa hér á landi, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Ragnar segir að meðal annars sé vísað til þess ákvæðis í hans málflutningi.

„Auðvitað voru gerðar kröfur um dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á sínum tíma. Síðan fór málið fyrir dómstóla þar sem Hæstiréttur tók þá afstöðu að dómstólar gætu ekki fjallað um hvort fyrir hendi séu skilyrði til að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Afstaða dómstóla hefur alltaf legið fyrir að þessu leyti.“

Nú taka því við samskipti við kærunefnd útlendingamála. Spurður um hversu langan tíma afgreiðsla þeirrar nefndar muni taka segist Ragnar ekki þekkja málshraða hennar nægilega vel.

„Almennt gengur stjórnsýslan hægt og ég veit ekki hvort þetta fær einhverja sérstaka flýtimeðferð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert