Leysa manneklu á Akranesi

Nú horfir til betri vegar á Akranesi.
Nú horfir til betri vegar á Akranesi. Sigurður Bogi Sævarsson

Fimm læknar munu hefja störf við heilsugæslustöðina á Akranesi á næstunni og fylla þeir um þrjú og hálft stöðugildi. Vegna manneklu á stöðinni hefur biðtími lengst nokkuð undanfarna mánuði.

Það gerðist í kjölfar þess að heilsugæslulæknar sem starfað hafa á Akranesi um árabil hættu störfum þar. Fóru þeir ýmist til annarra verkefna eða luku störfum.

Þetta staðfestir Guðjón Brjánsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, í samtali við mbl.is.

Hann segir nýráðnu læknana vera með umtalsverða starfsreynslu og fjölbreyttan bakgrunn, bæði í sérfræðigrein heimilislækninga, á geðsviði og endurhæfingu og í almennum lækningum.

Samningur við lækna gerir ráð fyrir að minnsta kosti tveggja ára samstarfi þar sem lögð verður áhersla á uppbyggingu veigamestu þátta þjónustunnar sem stjórnvöld hafa kynnt undanfarin misseri, svo sem fræðslu,  forvörnum, hagnýtingu hreyfiseðla, geðheilbrigðisþjónustu, sálgæslu, hjúkrunarmóttöku og almenna lýðheilsu. 

Læknarnir munu hefja störf fljótlega í áföngum en þess er vænst að starfsemi heilsugæslunnar verði komin í gott horf að nýju á vormánuðum.

Frétt mbl.is: Læknaskortur á Skaganum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert