Óvenju erfiðar aðstæður á spítalanum

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Golli

Aðstæður á Landspítalanum eru óvenju erfiðar þessa dagana og hefur nýting legurýma verið yfir 100%. Útskriftir ganga hægar en viðunandi er. Þetta er meðal þess sem kemur fram í vikulegum pistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans. 

Hann segir starfsfólk spítalans finna fyrir áhrifum inflúensufaraldusins af miklum þunga.

„Það er ekkert sem kemur okkur á óvart enda inflúensan og fleiri umgangspestir árviss gestur á þorra. Nú eru í gangi þrír stofnar inflúensunnar, tveir af stofni A og einn af stofni B.

Þó að við séum ýmsu vön þegar að þessum málum kemur þá eru aðstæður á spítalanum óvenju erfiðar eins og flestum er kunnugt um. Nýting legurýma hefur verið yfir 100% og útskriftir ganga hægar en viðunandi er.

Því er ástandið þungt bæði á bráðamóttöku og öðrum deildum og höfum við þegar gripið til aðgerða til að mæta því eftir þvi sem unnt er. Brýnt er að fólk leiti ekki á bráðamóttökuna nema nauðsyn beri til, auk þess sem mikilvægt er að aðstandendur með flensulík einkenni fresti heimsóknum. Við munum fylgjast náið með þróun mála,“ skrifar Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert