Stefnir í stórhríð víða á morgun

Veturinn er sannarlega ekki að hverfa á braut.
Veturinn er sannarlega ekki að hverfa á braut. mbl.is/Rax

Í kvöld bætir í snjókomuna á Vestfjörðum og í nótt gengur í norðaustanstorm þar sem heldur áfram fram eftir morgundegi. Eftir hádegi hvessir annars staðar af norðri og eykst snjókoma og skafrenningur fyrir norðan og stefnir í stórhríð víða.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Veðurstofu Íslands. Þar segir: „Á mannamáli verður slæmt veður á norðurhluta landsins á morgun og gera má ráð fyrir að snjóflóðahætta þar aukist hratt næsta sólarhringinn. Við hvetjum því alla um að fara varlega og meta aðstæður af skynsemi.“

Varað er við stormi um landið norðvestanvert seint í nótt og á morgun.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir: 

Talsverðar breytingar verða á veðrinu í dag, en helgin býður upp á norðan hvassviðri eða storm með snjókomu fyrir norðan, en sunnanlands verður að mestu þurrt. Skil liggja nú yfir norðan- og austanverðu landinu með ákveðinni suðaustan átt og ofankomu, en þau mjakast smám saman norðaustur af landinu þegar líður á daginn.

Eftir situr hefðbundin suðvestan átt með éljum. Snýst í vaxandi norðaustan átt í kvöld með snjókomu norðantil á landinu og sums staðar má búast við talsverðri ofankomu.

Seint í nótt og á morgun má búast við hvassviðri eða stormi um landið norðvestanvert með snjóbyl og litlu skyggni, en bætir hægt og rólega í vind í öðrum landshlutum. Annað kvöld verður snjókoma um allt norðanvert landið, en úrkomulítið sunnantil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert