Fagna sólinni með hátíðinni List í ljósi

List í ljósi
List í ljósi

„Við erum að fagna því að sólin er komin aftur í bæinn,“ segir Sesselja Jónasardóttir framleiðslustjóri listahátíðarinnar List í ljósi á Seyðisfirði sem hófst í gær og lýkur í kvöld með gjörningi og tónleikum Högna Egilssonar í Bláu kirkjunni. Hátíðin er haldin utandyra og eru áhorfendur um leið þátttakendur en þeir munu sjá ýmis listaverk, allt frá innsetningum, myndbandsverkum til stærri ljósaskúlptúra en hátíðin mun bókstaflega lýsa upp Seyðisfjörð.

List í ljósi
List í ljósi

Listamennirnir sem taka þátt í hátíðinni eru 31 talsins og eru bæði innlendir og erlendir. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Celia Harrison en hún er menntaður rýmishönnuður og hefur sérhæft sig í innsetningum. Hún er m.a. stofnandi alþjóðlegu listahátíðarinnar Art in the dark og hefur stýrt svipuðum hátíðum víða á Nýja-Sjálandi.

Hin nýsjálenska Celia Harrison er forsprakki og skipuleggjandi hátíðarinnar, List …
Hin nýsjálenska Celia Harrison er forsprakki og skipuleggjandi hátíðarinnar, List í ljósi, en hún hefur mikla reynslu af sköpun sem þessari enda er ljósahátíð hennar, Art in the dark, ein sú stærsta sinnar tegundar í heimalandinu Nýja Sjálandi.

Celia ákvað að koma hingað til lands fyrir sex mánuðum síðan því þá hafði hellst yfir hana löngun til að sjá lífið hinum megin á hnettinum. „Mig langaði að breyta til í lífinu og lét slag standa. Fyrir tilviljun endaði ég á Seyðisfirði, er hér ennþá, og það er algjörlega dásamlegt,“ segir Celia í viðtali við blogg hátíðarinnar.

Aðspurð um af hverju hún sá fyrir sér að bærinn væri góður staður fyrir List í ljósi segir hún innblásturinn svo mikinn á svæðinu. „Allir eru svo til í allt og mig langaði að fagna komu sólarinnar með fólkinu hér því biðin eftir þessari gulu er búin að vera löng. Það eru allir að leggjast á eitt til að gera þetta sem magnaðast og kvöldið í kvöld verður svo litríkt og fallegt. Fólk mun fá allt öðruvísi upplifun af Seyðisfjarðarbæ. Ég hlakka til,“ segir Celia.

List í ljósi
List í ljósi

 

Gengið um bæinn

Klukkan 20 í kvöld hefst ganga um bæinn sem lýkur um miðnætti en búið er að númera og kortleggja göngusvæði þar sem listaverk, gjörningar og innsetningar eru en sum verkanna eru gagnvirk og eru áhorfendur hvattir til að prófa. Gangan endar sem fyrr segir í Bláu kirkjunni með tónleikum.

List í ljósi
List í ljósi

Fjölbreytt verk verða til sýnis. Í lok hátíðarinnar verður varpað upp verki eftir Siggu Boston á Bláu kirkjuna. Í sundlaug bæjarins hefur einnig listaverki verið komið fyrir. Listakonan Harpa Einarsdóttir hefur útbúið risastóran skúlptúr, óróa, sem hangir yfir Lóninu við Seyðisfjörð með stórum krana sem ljósi verður varpað á. Þá verður útibíó þar sem sýndar eru stuttmyndir frá ýmsum listamönnum. Við Lónið verða einnig rammar sem varpa upp verki í þrívídd svo fátt eitt sé nefnt á nafn.

List í ljósi

List í ljósi
List í ljósi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert