Landbúnaður styrktur um 22- 24 milljarða ár hvert

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir nýjan búvörusamning …
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir nýjan búvörusamning ásamt óbeinum stuðningi við landbúnað kosta neytendur 22-24 milljarða á ári, eða 220-240 milljarða yfir gildistíma hans. Samningurinn var undirritaður í gær af ráðherra og forsvarsmönnum Bændasamtakanna. Mbl.is/Samsett mynd

Kostnaður ríkisins við búvörusamning sem var kynntur í gær nemur um 13-14 milljörðum á ári og er til næstu 10 ára, þó með tveimur endurskoðunarákvæðum. Á sama tíma hefur óbeinn stuðningur landbúnaðarins í formi tollaverndar verið metinn upp á 9-10 milljarða á ári.

Á hverju ári fær því landbúnaðurinn 22-24 milljarða í beina og óbeina styrki frá ríki og neytendum. Svona stórar upphæðir kalla á nánari umræðu en bara samræður ráðherra og bændasamtakanna. Þetta segir Andrés Magnússon, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við mbl.is

Frétt mbl.is: „Tímamótasamningur“ fyrir bændur

Andrés segir að með svona samning hljóti að þurfa að horfa til tímalengdar hans og hvaða upphæð sé á bak við hann. Segir hann fyrstu árin kosta 13-14 milljarða en svo muni eitthvað draga úr honum þegar á líður.

Á tímabilinu eru reyndar tvö endurskoðunarákvæði en Andrés segist ekki hafa mikla trú á að það muni reyna á endurskoðunarákvæðin. Þannig sé í raun verið að binda hendur næstu tveggja ríkisstjórna í þessu máli.

Eins og Icesave samningur

Styrkir til landbúnaðarins eru tvíþættir að sögn Andrésar. Eins og fyrr segir bæði beinir og óbeinir styrkir. Segir Andrés að ekkert bendi til þess að draga eigi úr óbeinu styrkjunum og þar sé um að ræða gífurlega skekkingu á markaði sem endi með að kosta neytendur milljarða á mánuði.

Í heild segir Andrés að óbeinir og beinir styrkir muni á næstu 10 árum nema 220-240 milljörðum miðað við þau drög sem hafa verið lögð fram. „Þetta er gífurlega há upphæð,“ segir hann og vísar til þess að kostnaður við fyrsta Icesave samninginn var áætlaður 208 milljarðar og þess síðari 87 milljarðar.

Andrés segir alífuglarækt vera verksmiðjuframleiðslu og ótækt að 50% tollur …
Andrés segir alífuglarækt vera verksmiðjuframleiðslu og ótækt að 50% tollur sé á þeirri vöru. mbl.is/Árni Sæberg

Stórar upphæðir í samanburði við lögreglu og ferðaþjónustuna

Þá bendir Andrés á samanburð við kostnað við lögreglu og saksóknaraembætti sem var áætlaður 11,7 milljarðar á þessu ári, eða um helmingur af samanlögðum styrk við landbúnaðinn. Þá nefnir hann þær 850 milljónir sem voru samþykktar sérstaklega til uppbyggingar brýnna verkefna á sviði ferðaþjónustu. „Og þar er um að ræða 375 milljarða gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið,“ segir Andrés um ferðaþjónustuna.

Leggja til helmings lækkun tolla

Á endanum eru það neytendur sem greiða fyrir hærra vöruverð og segir Andrés furðulegt að þeir séu ekki spurðir um álit á þessum samningum. „Þarna er gerður samningur þar sem almenningur, skattgreiðendur, borga með beinum eða óbeinum hætti. Það er hvergi spurt að því hvernig neytendur njóta þessa samnings. Sagt með almennum orðum en ekkert fast um að neytendur eigi að njóta hans,“ segir Andrés og bætir við að það hljóti að vera krafa launþegahreyfingarinnar að hafa eitthvað um svona mál að segja.

Andrés segist telja flesta sammála um að það eigi að ýta undir að viðhalda gamla landbúnaðinum hér á landi. Auðvelt væri að ná um það heildarsátt. Aftur á móti sé önnur saga um framleiðslu á hvítu kjöti og á þar við alifuglakjötið. Segir hann þá framleiðslu vera hreina verksmiðjuframleiðslu en samt sé 50% tollvernd á því kjöti. Til viðbótar sé tollvernd á svínakjöti og eggjum um þriðjungur.

Hann segir verslunina vera þeirrar skoðunar að fyrst um sinn væri eðlilegt að lækka allavega óbein gjöld í formi tolla um allavega helming. Hafa samtökin lagt slíkt fram fyrir ráðherra, en ekkert hefur verið í hendi með það.

Hvað segir launþegahreyfingin?

Næsta skref er að samningarnir fara í atkvæðagreiðslu hjá bændum og svo fyrir þingið. „Mun þessi samningur renna í gegnum þingið athugasemdalaust,“ spyr Andrés og bætir við „Mun fjöldahreyfing launþega í þessu landi, ASÍ og BSRB, láta samninginn ganga í gegn athugasemdalaust.“ Segist hann kalla eftir því að þingmenn og verkalýðshreyfingin fari nánar yfir hann og komi með skoðanir sínar á honum.

Andrés spyr hvað samtök launþega muni segja við samningum sem …
Andrés spyr hvað samtök launþega muni segja við samningum sem þessum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðspurður hvort hann telji eðlilegt að fleiri komi að samningsgerðinni segir Andrés að það væri eðlilegt að fleiri en bændasamtökin og stjórnvöld ákveði svona hluti. Bendir hann á að verslunin hafi aðeins fengið að sjá drögin fyrir um 10 dögum með því að hafa þrýst á stjórnvöld. Segist hann vilja sjá bæði fulltrúa neytenda og verslunar við gerð svona samninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert