Rökstuddur grunur um 10 mansalsmál

AFP

Á síðustu tveimur árum hafa komið um 10 mál þar sem rökstuddur grunur hefur verið um mansal. Mun fleiri mál hafa komið upp þar sem talið var líklegt að slíkt ætti sér stað en ekki var hægt að fylgja málunum eftir. Hvert og eitt mál er sérstakt og getur reynst mjög erfitt að sannfæra þolendur að þeir séu í aðstæðum sem þeir þurfi að komast úr.

Þetta segir Snorri Birgisson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og sérfræðingur í rannsóknum mansalsmála. Hann hefur farið fyrir svokölluðum mansalshóps lögreglunnar sem kom meðal annars að málinu í Vík í vikunni. Mbl.is ræddi við hann um mansalsmál hér á landi og verklag í kringum slík mál.

Mansal ekki bara í vændi
Mansal ekki bara í vændi AFP

Þurfa að sannfæra þolendur að koma „úr klóm kvalara sinna“

Þegar upp koma mál þar sem grunur er um mansal segir Snorri að númer eitt, tvö og þrjú sé að koma þolendum í öruggt skjól. Það snúist oft um að að sannfæra þolendur um að þeir séu í raun þolendur og að koma þurfi þeim „úr klóm kvalara sinna,“ segir hann. Það sem spilar inn í svona mál eru tilfinningar fólks og segir Snorri að fólk trúi því oft ekki að það séu þolendur.

Þegar þetta fyrsta skref hefur verið yfirstigið segir Snorri að stundum þurfi að meðhöndla geranda í málinu, en í því getur m.a. falist nálgunarbann eða handtaka.

Viðamikil verklag þegar kemur að mansalsmálum

Á sama tíma þarf að fara yfir möguleg úrræði fyrir þolendur. Segir hann hvert og eitt mál metið sérstaklega, en fólk fái réttargæslumann og þá sé oft horft til sálfræðilegrar aðstoðar. Úrræði fyrir brotaþola mansalsmála er á könnu velferðarráðuneytisins, en ábyrgð á verklaginu er á höndum innanríkisráðuneytisins.

Snorri segir að hjá velferðarráðuneytinu sé starfandi hópur sem greini hver þörfin sé. Þar séu aðilar frá ráðuneytinu, mannréttindaskrifstofu Íslands og Reykjavíkur, Útlendingastofnun, lögreglunni og félagsþjónustunni. Auk sálfræðiaðstoðar er meðal annars horf til þess hvort viðkomandi þurfi læknisaðstoð o.s.frv.

Snorri Birgisson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og sérfræðingur í …
Snorri Birgisson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og sérfræðingur í rannsóknum mansalsmála. Mynd/Snorri Birgisson

Oftast er farið með þolendur mansals fyrst í Kvennaathvarfið og segir Snorri það einstaka þjónustu sem þar sé veitt og gríðarlega mikilvæga. Því miður er ekki enn til slíkur staður fyrir karlkyns þolendur, en Snorri segir að það standi víst til bóta á næstunni. Þrátt fyrir góða aðstöðu segir Snorri að Kvennaathvarfið sé ekki framtíðarlausn fyrir þolendur og sé það hlutverk viðkomandi sveitarfélags þar sem mál koma upp um að tryggja að húsnæði sé til staðar.

Aðspurður hvort slíkt eigi við jafnvel þótt um lítil sveitarfélög sé að ræða segir Snorri að þá sé stundum þörf að „hugsa út fyrir kassann.“ Þá getur verið að velferðarráðuneytið komi að málinu og aðstoði með húsnæði fyrir viðkomandi.

Í mörgum tilfellum vilja þolendur bara komast í burtu

Eitt af vandamálum sem geta komið upp í mansalsmálum er að í þeim er þolandinn oft erlendur aðili. Segir Snorri að þá þurfi að selja viðkomandi að þeir geti treyst yfirvöldum, en slíku sé ekki alltaf að skipta þaðan sem þolendurnir komi frá. Samkvæmt lögum eiga þolendur mansals rétt á sex mánaða mansalsdvalarleyfi, en það er umþóttunartími sem viðkomandi hefur eftir að mál kemur upp. Segir Snorri að það sé svo í höndum Útlendingastofnunar að ákveða framhaldið og hvort dvalarleyfi sé gefið út.

Í mörgum tilfellum er þó vilji þolandans að komast bara í burtu og segir Snorri að í slíkum málum sé ekki hægt að þröngva aðstoð upp á fólk sem ekki vilji hana. Í slíkum tilfellum getur oft verið erfitt að fylgja málum eftir að fullu.

Mansal getur átt sér stað í fjölmörgum atvinnugreinum
Mansal getur átt sér stað í fjölmörgum atvinnugreinum AFP

Mansal ekki bara í vændi

Undanfarin ár hefur verið mikil vakning í málefnum tengdum mansali og segir Snorri að fyrir tveimur árum síðan hafi meðal annars verið farin hringferð á vegum mansalshópsins þar sem þau hafi hitt heilbrigðisstarfsfólk, starfsmenn verkalýðsfélaga, skattayfirvöld og alla þá sem koma mögulega að málefnum þar sem aðstæður fólks eru skoðaðar.

Hann segir marga hafa horft til baka eftir þetta og gert sér grein fyrir að mál sem komu upp áður gætu vel hafa verið mansalsmál. Segir hann það blinda marga að staðalímynd mansals sé vændiskona og sala vændis. Það sé reyndar stærsti hluti mansals í heiminum, en menn gleymi oft vinnumansali, sem kallast öðru nafni þrældómur.

Segir hann vinnumansal geta verið á fjölmarga vegi, allt frá störfum þar sem réttindi séu sniðgengin og yfir í hreina kúgun þar sem fólki er haldið föngum. Þá séu líka dæmi um húsþræla í gegnum svokallað au-pair starf.

Ætlum við að gera eitthvað eða horfa til hliðar?“

Snorri segir að málum fari fjölgandi. Aðspurður hvort það þýði að mansal sé núna algengara en áður segist hann fyrst og fremst telja að vitneskja og skilningur á málaflokknum sé núna að skila sér í að fleiri mál komi upp. „Þetta er neðanjarðarstarfsemi sem hefur því miður viðgengist og mun gera áfram. En hvaða afstöðu ætlum við að taka til þeirra brota? Ætlum við að gera eitthvað eða horfa til hliðar?“ spyr Snorri og svarar því sjálfur að miðað við fjölmiðlaumfjöllun undanfarna daga virðist sér ljóst að Íslendingar séu ekki tilbúnir að láta þetta líðast hér á landi.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert