Holtavörðuheiði ófær og víða varasamt

Ljósmynd/Björgvin Páll Hauksson

Lokað er um Siglufjarðarveg og Súðavíkurhlíð vegna snjóflóða. Einnig er lokað um Holtavörðuheiði en vegfarendum er bent á að Laxárdalsheiði og Brattabrekka eru opnar en þar er hálka, snjóþekja og þungfært, skafrenningur og mikið hvassviðri.

Það er norðan hvassviðri eða stormur norðvestan til og einnig allhvöss eða hvöss norðanátt á öllu norðanverðu landinu í kvöld með skafrenningi og snjókomu, jafnvel talsverðri um tíma, og má því búast við varasömu ferðaveðri á þessum slóðum. Hvessir suðvestanlands seint í nótt, en dregur úr vindi á morgun, einkum um landið vestanvert.

Hálka og skafrenningur er á Sandskeiði og í Þrengslum en snjóþekja og skafrenningur á Hellisheiði. Á Suðurlandi er hálka eða hálkublettir en þó sumstaðar snjóþekja.

Það er hálka og hálkublettir á Vesturlandi og sumstaðar éljagangur eða skafrenningur og mikið hvassviðri. 

Á  Vestfjörðum er ófært um Steingrímsfjarðarheiði, Þröskulda og Klettsháls. Þá er hálka, snjóþekja og þæfingsfærð á Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði en einnig einhver él eða skafrenningur. Snjóþekja og þæfingur er annars víðast hvar á láglendi. Þungfært og mikið hvassviðri er á Innstrandavegi.

Snjóþekja eða hálka og mikið hvassviðri er á flestum aðalleiðum á Norðurlandi vestra en þó er ófært um Þverárfjall.
Norðaustanlands er einnig snjóþekja, hálka, þæfingsfærð og éljagangur eða skafrenningur víðast hvar.

Á Austurlandi er snjóþekja eða skafrenningur á Möðrudalsöræfum en annars er hálka eða hálkublettir á flestum öðrum leiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert